Lærðu að segja dráttarvélar

Leikskólakrakkarnir á Egilsstöðum skoðuðu traktorana.
Leikskólakrakkarnir á Egilsstöðum skoðuðu traktorana. Ljósmynd/Barnaheill

„Við erum staddir á Djúpavogi og höfum það gott. Í gær keyrðum við firðina, frá Egilsstöðum til Reyðarfjarðar, þaðan til Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur áður en við komum hingað. Við ákváðum að fara lengri leiðina, ekki Öxi, því þessi leið er skemmtilegri og margbreytilegri,“ segir Karl Friðriksson í samtali við mbl.is. „Í dag er förinni heitið áfram til Hafnar.“ 

Karl Friðriks­son og Grét­ar Gúst­avs­son eru staddir á Austurlandi í hringferð sinni á traktorum. Með ferðalag­inu safna þeir pen­ing til styrkt­ar Vináttu – for­varn­ar­verk­efni Barna­heilla gegn einelti. 

Þeir hafa verið á ferðalagi í viku og traktorarnir malla áfram. „Það hafa ekki komið upp nein vandamál. Traktorarnir standa sig eins og hetjur, þessir höfðingjar.“

Félagarnir ræddu við krakkana á leikskólanum á Egilsstöðum í gær. „Við héldum tölum um vináttu og verkefnið okkar og það var virkilega gefandi og skemmtilegt. Þau fengu líka að setjast upp á traktorana og lærðu að segja dráttarvélar!“ Karl segir að það sé öðruvísi að halda fyrirlestur yfir krökkum en þeim sem eru eldri. „Maður verður að setja sig á annað plan en vanalega. Þau eru hreinskilnir áhorfendur sem segja nákvæmlega það sem þau hugsa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert