Stefnir í metþátttöku í Kia Gullhringnum

Algjört hjólreiðaæði virðist hafa gripið um sig á Íslandi. Um 1200 manns tóku þátt í WOW hjólreiðakeppninni sem lauk í síðustu viku. Framundan er Kia Gullhringurinn sem er ein af stærstu keppnum ársins.

Nú þegar stefnir í algjöra metþátttöku í keppninni en skipuleggjendur hennar búa sig undir að keppendur verði á milli 700 til 800 á Laugarvatni þann 11. júlí nk. Þetta er í fjórða skiptið sem keppnin fer fram. Kia Gullhringurinn var fyrst haldinn árið 2012 og þá voru keppendur um 100 en í fyrra voru þeir um 400 talsins.

„Við höfum lagt á það mikla áherslu að vinna þetta hægt og rólega í samvinnu við rekstraraðila og íbúa á Laugarvatni en keppnin hefur tvöfaldast í stærð á milli ára frá upphafi. Ásborg Arnþórsdóttir ferðamálafulltrúi í uppsveitunum hefur reynst okkur alveg frábærlega í þeim undirbúningi,“  segir Áslaug Thelma Einarsdóttir, eigandi keppninnar. „Kveikjan að mótinu er Vätternrundanmótið í Svíþjóð en þar er hjólað í kringum vatn eins og segja má að við séum að gera. Þar keppa 30.000 manns á hverju ári.“

María Ögn Guðmundsdóttir, hjólreiðakona ársins 2014, hefur unnið kvennaflokkinn frá fyrstu keppni og hún mætir að sjálfsögðu til að verja titilinn í ár. Hins vegar eru tveir af sigurvegurum karlaflokksins meiddir í ár og sigurvegarinn frá því í fyrra Ingvar Ómarsson er að keppa erlendis þannig að karlaflokkurinn er galopinn. Keppninni er skipt upp í þrjár mismunandi vegalengdir til að mæta þörfum byrjenda jafnt og þeirra sem vilja keppa á afreksmannastigi.

Keppnin hefur verið færð til kl. 18 hinn 11. júlí þar sem umfang hennar hefur stóraukist. Er þetta gert í samráði við Vegagerðina en á þessum tíma dags hefur umferð minnkað töluvert í uppsveitum Árnessýslu og með því er verið að reyna að tryggja öryggi keppenda og annarra í umferðinni þennan dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert