Flöskuskeyti á leiðarenda 40 árum síðar

Katrín Steingrímsdóttir á heimili sínu með útprentað eintak af skeytinu.
Katrín Steingrímsdóttir á heimili sínu með útprentað eintak af skeytinu.

Katrín Steingrímsdóttir í Reykjanesbæ fékk þau óvæntu skilaboð á dögunum að fundist hefði flöskuskeyti sem hún sendi að sumarlagi úr fjörunni við Sauðárkrók í kringum 1972.

Katrín telur að hún hafi verið um 10 ára er hún var að leik með frænda sínum, Gunnari Frey Valdimarssyni. Voru þau í sumarvist hjá ömmu sinni á Króknum og einhvern veginn kviknaði sú hugmynd hjá þeim að senda flöskuskeyti. „Við vorum bara að leika okkur þarna í fjörunni, ég man ekki einu sinni eftir að hafa skrifað þetta,“ segir hún, en engum sögum fer af þessu skeyti, sem féll í gleymsku eins og sumarleikir barna eiga til, þangað til fyrr á þessu ári. Þá kemur til að Sævar Líndal Hauksson er að taka til í skjölum föður síns, Hauks Líndal, sem lést snemma á árinu. Sævar lýsir því svo: „Ég var að fara í gegnum hans plögg og þá fann ég þennan miða. Ég sé að það eru þarna tvö nöfn og Sauðárkrókur. Ég fer að gúggla þetta og fer á ja.is,“ segir Sævar, sem hafði samband við nokkur nöfn sem pössuðu við bréfið. Upp úr því kom að Katrín kannaðist við það.

Engum sögum fer þó af því hvar Haukur fann skeytið eða hvenær og líklega upplýsist það ekki úr þessu.

Ótrúlegt að það hafi fundist

Haukur bjó í Reykjavík mestan hluta ævi sinnar en síðustu árin dvaldi hann á Blönduósi.

Katrín segist fegin því að hafa heyrt af bréfinu þó að langt sé um liðið. „Mér fannst einhvern veginn ótrúlegt að það væri búið að finnast. Við höfum örugglega bara hent því í fjöruna þarna á Króknum fyrir neðan húsið hjá ömmu og afa og alveg örugglega í glerflösku eins og var gert hérna áður, með korktappanum og allt. Ég get helst ímyndað mér að þetta hafi verið einhvern veginn þannig,“ segir Katrín.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert