Þórir deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík

Þórir Guðmundsson.
Þórir Guðmundsson.

Þórir Guðmundsson hefur verið ráðinn deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík. Hann hefur undanfarin ár stýrt alþjóðastarfi Rauða krossins hér á landi og aðstoð við hælisleitendur og flóttamenn, en mun nú leiða starf félagsins í höfuðborginni. Þórir var valinn úr hópi tæplega 60 umsækjenda, en staðan var auglýst í byrjun júní.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Rauði krossinn í Reykjavík heldur úti öflugu mannúðarstarfi, meðal annars með því að reka athvörfin Vin fyrir fólk með geðraskanir og Konukot fyrir heimilislausar konur. Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Reykjavík heimsækja einmana fólk, hjálpa börnum innflytjenda með heimanám, aðstoða sjúklinga með margvíslegum hætti, hlúa að þolendum slysa og styðja aðlögun flóttafólks, svo nokkuð sé nefnt.

„Framundan er áframhaldandi uppbyggingarstarf hjá deildinni, en hún er sú stærsta innan hreyfingarinnar hér á landi. Við í stjórn Rauða krossins í Reykjavík erum afar ánægð að fá Þóri, með hans miklu reynslu og þekkingu á starfi Rauða krossins, til að leiða starfsemina,“ er haft eftir Kristínu S. Hjálmtýsdóttur, formanni deildarinnar, í fréttatilkynningu.

Þórir hóf störf fyrir Rauða krossinn árið 1996, fyrst á vegum Alþjóða Rauða krossins í gömlu Sovétríkjunum og Asíu en síðar sem sviðsstjóri upplýsingastarfs, fjáröflunar og fræðslu. Frá 2008 hefur Þórir stýrt alþjóðastarfi félagsins auk annarra verkefna. Hann hefur einnig unnið við fjölmiðla, lengst af á Stöð tvö sem varafréttastjóri. Þórir mun hefja störf sem deildarstjóri í lok ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert