Sá vagninn springa

Vagn númer 30 var tvílyftur og sat hinn 18 ára …
Vagn númer 30 var tvílyftur og sat hinn 18 ára gamli tilræðismaður, Habib Hussain, á efri hæð vagnsins. AFP

„Mín fyrstu viðbrögð voru að reka stelpurnar mínar í skó og undir sæng,“ segir Hrafnhildur Ragnarsdóttir um 7. Júlí 2005 þegar strætisvagn númer 30 sprakk fyrir utan gluggann hjá henni á Tavistock torgi í London.

 Í dag er fórnarlambanna 52 sem létust í sprengjutilræðunum fjórum fyrir tíu árum minnst af hinum yfir 770 sem slösuðust sem og allri bresku þjóðinni með ýmiskonar minningarathöfnum. Hrafnhildur var í fjölskylduferð með eiginmanni sínum og þremur börnum og voru þau nývöknuð þegar fjórði tilræðismaðurinn sprengdi sig í loft upp í strætisvagninum.

Frétt mbl.is: Minnast framtíðar sem ekki varð

„Þetta var fyrsti morguninn okkar. Við komum seint um kvöld og vöknuðum svo morguninn eftir við rosalegar sírenur og læti og ég hélt kannski helst að það væri slökkvistöð eða eitthvað í nágrenninu. Við vorum svona að velta því fyrir okkur af hverju það væru svona mikil læti en pældum ekkert meira í því. Svo leið einhver tími, við vorum að fara að fá okkur morgunmat og ég var að draga frá glugganum og þá varð þessi sprenging.“

Álengdar sá Hrafnhildur strætisvagninn og afleiðingar sprengingarinnar en hún segist ekki hafa áttað sig á því hvað hún væri að horfa á. Taldi hún í fyrstu að stillansi hefði hrunið. „Ég skyldi ekkert hvað þetta var, ég sá bara öskrandi fólk. Svo sáum við fullt af slösuðu fólki, allir æðandi um og öskrandi, og vorum enn ekki búin að átta okkur á hvað hafði gerst en þá kveikjum við á sjónvarpinu þar sem var farið að tala um sprengingarnar í lestunum. Þá hljóp sonur minn út og fékk að vita hvað hefði gerst.“

Með lögreglufylgd inn og út

Um klukkan 08:50 um morguninn höfðu þrír menn gert sjálfsmorðssprengjuárásir á jafn mörgum stöðum í neðanjarðarlestum Lundúna. Sprengingin í strætisvagninum átti sér stað um klukkutíma síðar. 13 farþegar vagnsins létust. Aftari helmingur strætisvagnsins féll saman við sprenginguna og lýstu sum vitni því sem svo að vagninn hefði tekist á loft við sprenginguna. Svo vildi til að sprengingin varð fyrir framan höfuðstöðvar Læknisfræðisamtaka Bretlands þar sem ráðstefna stóð yfir og þó svo að neyðarbúnað hafi skort í fyrstu voru tugir lækna því meðal þeirra fyrstu sem komu á vettvang.

Frétt mbl.is: „Ókunnugir björguðu lífi mínu“

Eins og áður sagði lét Hrafnhildur dætur sínar, sem þá voru 14 og 12 ára gamlar, fara í skó og undir sæng. Segir hún að líklega hafi hún viljað hafa þær tilbúnar og fundist einhver vörn í sænginni en kann ekki aðrar skýringar á viðbrögðum sínum.

„Allri götunni var lokað og við þurftum að vera þarna í nokkra klukkutíma. Það var verið að gera að sárum fólks beint fyrir utan gluggann hjá okkur. Það var meira að segja búið að setja upp í æð á gangstéttinni beint fyrir framan okkur,“ segir Hrafnhildur. Nokkrum klukkutímum síðar ákvað lögreglan að rýma öll húsin í kring og komst fjölskyldan því ekki aftur inn á svæðið fyrr en seint um kvöldið. „Svo vorum við alltaf í lögreglufylgd út og inn. Það var verið að rannsaka strætóinn alla vikuna og einn morguninn vöknuðum við það að það voru menn utan á húsinu okkar í hvítum göllum  með flísatangir.“

Lundúnabúar æðrulausir

Hrafnhildur segir fjölskylduna vissulega hafa rætt hvort þau ættu að vera áfram í London en að niðurstaðan hafi verið sú að halda áætlun. Hefðu þau hjónin verið ein á ferð telur hún líklegt að þau hefðu farið heim en þar sem öll fjölskyldan var saman á ferð  og heil á höldnu gerði lífsreynsluna bærilegri.

Fjölskyldunni var ekki vel við að taka almenningssamgöngur eftir sprengingarnar en neyddust þó, eins og aðrir íbúar og gestir borgarinnar, til að taka á sig rögg. Hrafnhildur segir það hafa reynst yngstu dóttur sinni afar erfitt.

„Við þurftum eiginlega að bera hana inn í strætisvagn, ég man alltaf eftir því. Okkur leið ekki vel að fara í neðanjarðarlestir og svona en maður tekst bara á við það,“ segir hún og bætir við að viðbrögð íbúa hafi hughreyst þau.

„Mér fannst Lundúnabúar alveg stórkostlegir. Það var svo alveg makalaust hvað þeir fóru yfirvegað í gegnum þetta. Það sem situr mest eftir er æðruleysi Lundúnabúa, það var merkilegast.“

Hrafnhildur segist í fyrstu ekki hafa áttað sig á því …
Hrafnhildur segist í fyrstu ekki hafa áttað sig á því sem hún sá. Ljósmynd/ Hrafnhildur Ragnarsdóttir
Þessi mynd var tekin 8. júlí, daginn eftir sprengjuárásina.
Þessi mynd var tekin 8. júlí, daginn eftir sprengjuárásina.
Blómsveigar voru í dag lagðir á minnisvarða um fórnarlömbin.
Blómsveigar voru í dag lagðir á minnisvarða um fórnarlömbin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert