Telja áhættu aukast með lokun flugbrautar

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni telja að áhættumat Isavia sýni að áhætta aukist og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar skerðist mjög ef einni flugbraut hans verður lokað. Engin muni sætta sig við að aðgengi sjúkraflugs að Landspítalanum lækki verulega.

Í yfirlýsingu frá samtökunum vegna áhættumatsins sem innanríkisráðuneytið hefur birt er því haldið fram að niðurstöður matsins sýni að áhætta við lokun brautarinnar, sem samtökin nefna neyðarbraut, sé í flokki B sem kallað sé „þolanlegt“ sem sé þvert á markmið um öruggar samgöngur þar sem stöðugt sé unnið að því að auka öryggi en ekki draga úr því og að flugfarþegar og sjúklingar muni ekki sætta sig við að fara úr frábæru flugöryggi niður í „þolanlegt“.

Hjartað í Vatnsmýri bendir jafnframt á að ýmsir ágallar séu á áhættumatinu. Strax í öðrum kafla áhættumatsins komi fram alvarlegir þættir og segi þar orðrétt: „þetta áhættumat tekur ekki á áhrifum á flugvallarkerfið í landinu, neyðarskipulag almannavarna [eða] sjúkraflutninga.“

Svo bætist við að nothæfisstuðull sé ranglega reiknaður þar sem áhrifa bremsuskilyrða og vindhviða sé með öllu sleppt en það séu stærstu og alvarlegustu áhættuþættir við lendingar flugvéla að vetrarlagi í erfiðum aðstæðum. Þá benda samtökin á að áhættumatshópurinn sé alfarið skipaður starfsmönnum Isavia og að aðkoma rekstraraðila og notenda vallarins hafi verið engin. Þá er bent á að Isavia hafi leyst upp fyrri áhættumatshóp reyndra sérfræðinga og flugstjóra sem lendi á vellinum árið um kring þegar í ljós kom að þeir töldu áhættuna við lokun brautarinnar óásættanlega.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert