Dómur um nálgunarbann ómerktur

Héraðsdómur Norðurlands Eystra.
Héraðsdómur Norðurlands Eystra. mbl.is/Skapti

Hæstiréttur hefur ómerkt ákvörðun Héraðsdóms Norðurlands eystra um að maður skuli sæta brottvísun af heimili sínu og nálgunarbanni þar sem ekki var rétt staðið að ákvörðun úrskurðar héraðsdóms. Hæstiréttur vísaði málinu aftur í hérað vegna þessa.

Maðurinn kærði úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra þar sem staðfest var ákvörðun lögreglustjóra um að manninum yrði gert að sæta í fimm mánaða nálgunarbanni gagnvart konunni.

Lögreglustjóri krafðist þess aftur á móti að manninum yrði gert að sæta brottvísun af heimili sínu í fjórar vikur og nálgunarbanni í fimm mánuði. 

Um skilyrði til þess að beita nálgunarbanni og brottvísun af heimili segir í lögum að heimilt sé að beita nálgunarbanni samhliða brottvísun af heimili ef það þykir nauðsynlegt til að tryggja hagsmuni brotaþola, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 24. júní 2015 (sjá frétt mbl.is)

Í niðurstöðu Hæstaréttar kemur fram að þann 19. júní 2015, á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2011, var manninum gert að sæta brottvísun af heimili sínu í fjórar vikur og nálgunarbanni í fimm mánuði samkvæmt úrskurði lögreglustjórans í Norðurlandi eystra. Lögreglustjóri bar 22. sama mánaðar ákvörðun sína undir héraðsdóm til staðfestingar. Af forsendum hins kærða úrskurðar og úrskurðarorði verður ráðið að ekki var tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar sóknaraðila er lýtur að brottvísun varnaraðila af heimili sínu. Verður því að ómerkja úrskurðinn og vísa málinu heim í hérað á ný til löglegrar meðferðar, samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar.

Í greinargerð lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, segir að tilkynning hafi borist lögreglu að kveldi 17. júní sl. um ætlað heimilisofbeldi á lögheimili konunnar og mannsins.

Greint er frá því að er lögregla kom á vettvang hafi konan verið þar utandyra í talsverðu uppnámi, en að maðurinn hafi verið innan dyra og segir í skýrslunni að hann hafi greinilega verið undir sýnilegum áhrifum áfengis og/eða lyfja.  Tekið er fram að hann hafi lokað útidyrahurðinni við komu lögreglu.  Strax lá fyrir að tvö ung börn þeirra, sem eru 4 og 5 ára, voru fjarverandi.

Í skýrslu lögreglu er haft eftir konunni að hún hafi komið á heimilið til þess að sækja föt fyrir börnin en hún hafi  tveimur vikum fyrr farið með þau til Reykjavíkur. Þegar hún kom norður hafði hún spurnir af því að maðurinn hefðist við á lögheimili sínu og heimili hennar og barna þeirra, og væri ölvaður.

Af ótta við hann hefði hún ekki viljað fara með börnin á heimilið og því farið með þau á heimili foreldra sinna og komið þeim þar fyrir.  Hún segist hafi hringt í manninn og tilkynnt honum að hún myndi koma og sækja fötin, en af ótta við hann hefði hún leitað aðstoðar mágs síns og hafi ætlast til að hann yrði á vettvangi þegar hún kæmi að heimilinu. Vegna misskilnings hefði sú ráðgerð brugðist og þau farist á mis. 

Þegar hún kom á heimilið var maðurinn henni reiður og þá fyrir að senda menn á vettvang.  Hún hafi farið inn í anddyri íbúðarinnar og séð bjór á borðum og því ætlað að hann væri ölvaður.  Hún hafi byrjað að týna fötin til og farið tvær ferðir með yfirhafnir út í bifreið.  Haft er eftir konunni að hún hafi ekki treyst sér til að lýsa atburðarrásinni eftir þetta að öðru leyti en því að maðurinn hefði reiðst og að þau hefðu í framhaldi af því farið að rífast, en síðan hefði komið til handalögmála þeirra í millum. 

Hún segir að maðurinn hafi hefði opnað útihurðina og í framhaldi af því hent henni út, en um leið sparkað aftan í hægra læri hennar. 

Konan skýrði lögreglu frá því að hún hefði verið í skráðri sambúð með manninum a um árabil.  Sambúðinni hefði í raun lokið í október 2013, en formlega í aprílmánuði 2015.  Hefði þá forræði og umgengnisréttur verið ákveðinn með dómi með tveimur ungum börnum þeirra.  Konan bar að þrátt fyrir þessi málalok væru aðstæður enn þær að hún og maðurinn, ásamt börnunum væru enn öll skráð með sama lögheimili og að þau væru enn sameigendur að húseigninni.

Konan greindi lögreglu frá því að á meðan á sambúð hennar og mannsins stóð hefði hann átt það til að beita hana ofbeldi, en að það hafi einkum gerst er hann hafi verið ölvaður.  Hafi nokkur tilvik af þessu tagi verið tilkynnt til lögreglu og hún m.a. sumarið 2013 þurft að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi vegna ofbeldis hans. 

Þá skýrði hún frá því að í lok maí á þessu ári hefði maðurinn ýtt henni út af heimili hennar með valdi með sama hætti og gerst hafði þann 17. júní sl., en að þá hefðu börn þeirra verið viðstödd.  Konan staðhæfði jafnframt að varnaraðili hefði beitt hana andlegu ofbeldi og m.a. haft í hótunum um að hann myndi bana hundi þeirra, en  þar fyrir utan hefði hann ítrekað hringt á vinnustað hennar og haft í frammi ósæmandi ummæli um hana við yfirmenn hennar.

 Við skýrslugjöf hjá lögreglu bar maðurinn að hann hefði gert formlegan samning um sameiginlegt forræði með tveimur börnum hans og barnsmóður sinnar, en einnig um reglulega umgengni hans við börnin.  Hann sagði að kveðið hefði verið á um að þau myndu eiga sama lögheimili en að jafnframt hefði verið afráðið að hann myndi flytja úr eigninni.  Hann kvaðst hafa flust á brott haustið 2014, en nýverið flutt aftur á hið fyrra lögheimili enda hefði hann ekki haft önnur ráð og vísaði m.a. til þess að enn væri uppi ágreiningur um eignaskipti. 

Hann sagði að konan hefði ekki verið ásátt við þessar ráðstafanir hans. Hann kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þann 16. júní sl., en staðhæfði að svo hefði ekki verið að kveldið þess 17., enda hefði hann þá aðeins neytt þriggja áfengra bjóra og því ekki verið drukkinn. Maðurinn bar að hann hefði verið reiður konunni vegna ágreinings þeirra um umgengni hans við börnin og almennt vegna framkomu hennar.  Hann kannaðist við að hafa ýtt henni út úr íbúðinni, en neitaði því að hafa sparkað á eftir henni, líkt og hún héldi fram.

Hann greindi frá því að meðan sambúð þeirra varði hefði komið til átaka þeirra í millum, en staðhæfði að þar hefði hún einnig átt sök.  Að því er varðaði atvik í lok maí sl. vísaði hann til þess að hann myndi ekki hvort hann hefði ýtt henni út úr íbúðinni, en sagði að það hefði þá verið í tengslum við umgengni hans við börnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert