Íslenskur lærlingur í Hvíta húsinu

Hvíta húsið í Washington D.C.
Hvíta húsið í Washington D.C. AFP

Hvíta húsið er líklega ein þekktasta bygging í heimi. Sökum hlutverks síns sem vistarverur og starfsstöð forseta Bandaríkjanna er öryggisgæsla á svæðinu afar ströng og þykir nokkuð eftirsóknarvert að fá hreinlega að stíga inn á lóðina sjálfa. Doktorsneminn Viktoría Gísladóttir sem nemur vélaverkfræði við Kaliforníu háskóla í San Diego gerði þó gott betur en það því hún var lærlingur hjá Hvíta húsinu frá því í janúar og fram í maí.

Á síðasta ári vann Viktoría að rannsóknum fyrir Army Corps of Engineers á vegum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Í kjölfarið fór hún á ráðstefnu um áhrif vísinda á opinbera stefnumótun og þar heyrði hún fyrst um White House Office of Science and Technology Policy en það er stofnun innan Hvíta hússins sem sérhæfir sig í stefnumótun í tengslum við tækni og vísindi.

„Ég hef alltaf haft gaman að stærðfræði og eðlisfræði en mér finnst fólk einnig áhugavert og það hvernig fræðin geta haft áhrif á samfélagið. Það er rosalega gaman að tvinna þetta saman svo þegar ég heyrði að það var stofnun sem hefði það hlutverk og að þau væru með stöðu fyrir lærling sem hægt var að sækja um þá varð ég að prófa,“ segir Viktoría.

„Mér datt þetta í hug í ágúst, skilaði umsókn um miðjan október og síðan gerðist þetta rosalega hratt. Þau buðu mér í viðtal tveimur vikum seinna og svo þurfti ég að fara í ákveðið öryggistékk. 24. desember fékk ég að vita að ég hefði staðist öll öryggispróf og svo byrjaði ég 9. janúar.“

Var spenntust fyrir fólkinu

Skrifstofan sem Viktoría starfaði á er staðsett á lóð Hvíta hússins, nánar tiltekið í Eisenhower byggingunni þar sem stærstur hluti starfsfólks Hvíta hússins vinnur auk þess sem hún hýsir starfsemi varaforsetans. Byggingin var byggð á árunum 1871 til 1888 og er afar tilkomumikil en hún var í áraraðir stærsta skrifstofubygging heims.  Eðli málsins samkvæmt þurfti Viktoría að fara í gegnum öryggisgæslu í hvert skipti sem hún mætti til vinnu og eins þegar hún fór í hádegismat.

„Það var náttúrulega rosalega spennandi tækifæri en maður hafði lítinn tíma til að hugsa um hvar ég var. Að vinna í Hvíta húsinu er ótrúlegt en mest spennandi var þó fólkið sem  ég fékk að vinna fyrir og með og að sjálfsögðu verkefnin. Með hverri vikunni sem leið áttaði ég mig meira og meira á þessu. Ég fór nokkrum sinnum inn í sjálft Hvíta húsið, svo var maður á lóðinni á hverjum degi og þetta er alveg hrikalega fallegt svæði. Þegar maður horfði í kringum sig á leiðinni heim í ljósaskiptunum var þetta eins og að vera á guðdómlega fallegu safni, sem var ekki leiðinlegt.“

Viktoría var einn fjögurra starfsmanna ráðgjafanefndar forsetans í tækni og vísindum (President's Council of Advisors on Science and Technology). Nefndina skipa um 20 sérfræðingar, bæði úr atvinnulífinu eða úr háskólasamfélaginu og nefnir Viktoría stjórnarformenn Google og framkvæmdastjóra rannsóknarseturs MIT og Harvard háskóla sem dæmi.

„Þessir ráðgjafar eru sérfræðingar í sínum sviðum. og hafa aðgang að upplýsingum víða að. Þannig getur nefndin komist að upplýstri niðurstöðu um tillögur fyrir forsetann.“

Ráðgjafanefndin hittist á tveggja mánaða fresti og eru þeim fundum sjónvarpað í gegnum netið en þess á milli er unnið í verkefnunum. Ráðgjöfin er veitt skriflega í skýrsluformi en stundum fundar nefndin með forsetanum.

„Ég þarf að passa mig hvernig ég segi þetta,“ segir Viktoría og hlær þegar blaðamaður spyr hvort hún hafi hitt forsetann. „Ég var ekki á spjalli við forsetann í hálftíma eða eitthvað svoleiðis en ég fékk að vera viðstödd fund með forsetanum. Ég djóka með að sumir fái 15 mínútur af frægð en ég fékk 1,5 sek því það sést einmitt í mig í 1,5 sekúndur á bakvið forsetann í myndbandinu frá fundinum. Þetta var mjög fyndið og æðislega skemmtilegt tækifæri.“

Trúir á hið ótrúlega

Viktoría tók meðal annars þátt í að undirbúa svokallað „Science Fair“ í Hvíta húsinu sjálfu þar sem krökkum víða að úr Bandaríkjunum sem unnið hafa afrek í vísindum er boðið að hitta forsetann. Hún segir verkefni sín á vegum ráðgjafanefndarinnar hafa verið fjölbreytt en að undanskyldum þeim tillögum til forsetans sem hafa þegar birst opinberlega megi hún ekki segja hver þau voru.

Eins og áður segir vinnur Viktoría að því að klára doktorsgráðu í vélaverkfræði og segist hún hafa hug á að vinna á rannsóknarsetri eftir að hafa lokið námi.

„Hvort sem ég fer inn í atvinnulífið eða stunda rannsóknir held ég að það myndi henta mér mjög vel að prófa að vera á rannsóknarstofu í nokkur ár. Það gæfi mér betri tækifæri til að átta mig á því hvaða leiðir ég vil fara eftir það,“ segir Viktoría og bætir því við að hún verði einmitt að vinna á rannsóknarsetri í Boston í sumar.  

Hvað reynsluna í Hvíta húsinu varðar segir hún að mest sitji eftir að hafa fengið að vinna að spennandi verkefnum með góðu fólki en einnig að trúa á hið ótrúlega.

„Ég hef lært að maður á ekki að takmarka sig við það sem maður heldur að sé hægt heldur skoða möguleikana, jafnvel þó þeir virki svolítið ótrúlegir. Margir hlutir virðast óraunverulegir þar til þeir verða að veruleika.“

Viktoría lætur vel af starfsdvölinni í Hvíta húsinu.
Viktoría lætur vel af starfsdvölinni í Hvíta húsinu.
Eisenhower byggingin árið 1981.
Eisenhower byggingin árið 1981. Ljósmynd/ Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert