Áforma 16 hæða turn í miðbæ Reykjavíkur

Gert er ráð fyrir nýjum 16 hæða íbúðaturni á horni Vitastígs og Skúlagötu í nýrri deiliskipulagstillögu fyrir svonefndan Barónsreit í miðborg Reykjavíkur. Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa samþykkt tillöguna til auglýsingar.

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan er gert ráð fyrir stórhýsi á lóðinni norðan við Laugaveg 77, húsnæði QuizUp og fyrrum útibú Landsbankans, og fer félag tengt GAMMA með það verkefni.

Örn Tryggvi Johnsen, verkefna- og rekstrarstjóri hjá ÞG Verk, segir tillögunni hafa verið vel tekið.

„Það er búið að samþykkja til auglýsingar deiliskipulagstillögur fyrir Laugavegsreit og Barónsreit. Þetta eru tvær tillögur fyrir sitthvorn reitinn.

Það sem þykir mjög gott við Laugavegstillöguna - það er mikil ánægja með þá tillögu hjá Minjastofnun og öllum sem að henni hafa komið - vegna þess að hún leggur svo mikla áherslu á verndun gamalla húsa. Þarna er nánast verið að byggja upp nýtt Grjótaþorp sem hefur vinnuheitið Vitaþorp, með tilflutningi gamalla húsa og uppbyggingu nýrra í þeim skala að það passi við gömlu byggðina,“ segir Örn Tryggvi.

Húsið sem hýsir KEX-hostel verður ekki rifið

Hér fyrir ofan má sjá drög að útliti reitanna, smella þarf á örvarnar til að sjá fleiri myndir.

Örn Tryggvi segir hugmyndina þá að í turninum geti orðið blanda af íbúðum og atvinnurekstri, jafnvel hótelrekstri, og er það liður í því markmiði að uppbyggingin stuðli að auknu lífi í hverfinu.

Hann tekur fram að ekki sé gert ráð fyrir niðurrifi hússins þar sem Kex er til húsa. Samkvæmt deiliskipulagi sé heimild að hafa húsið tveimur hæðum hærra. Það komi því til greina að byggja ofan á húsið.

Eins og sjá má á myndunum með þessari frétt er gert ráð fyrir að á lóðinni Hverfisgötu 85-91, milli Bjarnarborgar við Vitastíg og gamla fjóssins við Barónsstíg, sem nú hýsir 10-11, rísi fjölbýlishús með litlum íbúðum.

Samkvæmt deiliskipulagi má turninn vera 60 metrar en til samanburðar er Hallgrímskirkjuturn tæpir 75 metrar. Ekki er kveðið á um fjölda hæða í skipulaginu en hámarkshæð hins vegar tiltekin.

Samkvæmt skipulaginu er heimilt að reisa allt að 120 íbúðir á Barónsreitnum. Á Laugavegsreitnum er hins vegar gert ráð fyrir rúmlega 100 íbúðum. Til samanburðar eru 77 íbúðir í tveimur síðustu turnum Skuggahverfisins.

Örn Tryggvi tekur að lokum fram að tiltekið sé að 5% íbúðanna verði félagslegar íbúðir og 10% íbúðanna íbúðir sem fari í langtímaleigu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert