Hugðist flýja lögreglu á sundi

Ökumaður bifreiðar sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu í nótt fyrr en hann stoppaði við Geirsnef og óð þar út í sjó. Lögreglu höfðu borist tvær tilkynningar um bifreiðina, annars vegar vegna ölvaðs ökumanns og hins vegar fyrir ítrekaðan akstur móti rauðu ljósi.

Á sjötta tímanum urðu lögreglumenn varir við akstur bifreiðarinnar í Ártúnsbrekku, en líkt og fyrr segir sinnti ökumaður ekki stöðvunarmerkjum og ók rakleiðis í átt að Geirsnefi. Þar stöðvaði hann bifreiðina og hljóp út í sjó og hugðist synda á brott.

Um var að ræða tæplega tvítugan pilt, en hann varð við áskorunum lögreglu eftir að hún kallaði til hans og skoraði á hann að koma að landi. Pilturinn var færður á lögreglustöð til blóðsýnatöku og sefur úr sér ölvunina í fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert