„Ég veit að hún er stolt af mér“

Katrín Tanja Davíðsdóttir stóð uppi sem sigurvegari.
Katrín Tanja Davíðsdóttir stóð uppi sem sigurvegari. Af Facebook-síðu Heimsleikanna

Katrín Tanja Davíðsdóttir, sem sigraði á heimsleikunum í crossfit í nótt, segist ekki hafa búist við því að standa uppi sem sigurvegari. „Markmiðið var ekki endilega að sigra heldur að gera mitt besta í hverri einustu þraut. Ég einbeitti mér bara að einni þraut í einu,“ sagði Katrín í viðtali stuttu fyrir verðlaunaafhendinguna. 

Hún komst ekki á leikana í fyrra og segir það hafa verið afar erfiðan tíma. „Það var hræðilegt að komast ekki á leikana í fyrra. Ég hef æft vel undanfarið ár og aldrei verið í betra formi, hvorki líkamlega né andlega, sérstaklega andlega.“

Það vekur athygli vestanhafs að á undanförnum þremur árum hafa íslenskar konur staðið uppi sem sigurvegari í þrígang. Annie Mist Þórisdóttir, sem hefur unnið leikana tvisvar, þurfti hins vegar að hætta keppni eftir hitaslag þetta árið.

„Við Annie erum góðir vinir og við keyrum hvor aðra alveg út á hverjum einasta degi. Það var erfitt að sjá hana þurfa að yfirgefa keppnina í ár en ég veit að hún var gríðarlega stolt af mér,“ segir Katrín, sem ber nú titilinn „hraustasta kona heims“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert