Slösuðum sinnt víða á Suðurlandi

Maður fékk grjóthnullung í sig við Seljalandsfoss.
Maður fékk grjóthnullung í sig við Seljalandsfoss. mbl.is/Ómar Óskarsson

Einn fékk grjóthnullung í handlegg. Annar féll af hestbaki. Nokkrir í göngu. Lögreglan á Suðurlandi hafði í ýmsu að snúast í vikunni sem leið, m.a. við að sinna slösuðum ferðamönnum.

Mánudaginn 20. júlí var erlendur ferðamaður aðstoðaður eftir að hafa fengið grjóthnullung í handlegg. Sjúkraflutningsmenn skoðuðu manninn sem á vettvangi en hann fór síðan með einkabifreið til frekari skoðunar á heilsugæslustöð. Maðurinn var á göngu upp hlíð skammt frá Seljalandsfossi þegar grjót losnaði þar sem næsti maður á undan honum var á ferð og féll á hann.

Þann 21. júlí, skammt frá bænum Hjálmsstöðum í Laugardal féll íslenskur hestamaður af baki þegar hesturinn hrekkti. Hann var fluttur á sjúkrahús en er ekki talinn alvarlega slasaður.

Þann 22. júlí slasaðist ferðamaður á Fimmvörðuhálsi þegar hann féll. Hann var meiddur á andliti og á höndum en kom sér sjálfur til byggða á Skógum og var fluttur með sjúkrabifreið þaðan á heilsugæslustöðina í Vík.

Þann 23. júlí klemmdist maður á fæti þar sem hann var við vinnu sína á jarðbor við Hellisheiðarvirkjun. Hann mun hafa lent með fótinn á milli vírs og járnbita með þeim afleiðingum að hann ristarbrotnaði. Verið var að taka vírinn af geymslutromlu borsins þegar atvikið átti sér stað.

Þann 24. júlí féll kona og meiddist á fæti þar sem hún var að fara yfir girðingu á túni í Flóahreppi.  Hún var flutt á sjúkrahús á Selfossi til skoðunar, jafnvel talin fótbrotin.

Þann 25. júlí slasaðist erlendur ferðamaður þegar hann féll af reiðhjóli sínu á Suðurlandsvegi vestan Víkur. Eftri skoðun á heilsugæslustöð var hún flutt áfram til frekari aðhlynningar á sjúkrahúsinu á Selfossi en er ekki talinn alvarlega slasaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert