313 starfsmenn segja upp störfum

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert

313 starfsmenn Landspítalans hafa nú sagt starfi sínu lausu, samkvæmt upplýsingum frá mannauðsdeild spítalans. Þrír hjúkrunarfræðingar hafa sagt upp á lyflækningasviði og þá hafa tveir hjúkrunarfræðingar á skurðlækningasviði sagt upp starfi sínu, síðan mbl.is birti síðast tölur um miðjan júlí.

Meginþorri uppsagnanna mun taka gildi 1. október, að sögn Báru Hildar Jóhannesdóttur, starfsmannastjóra á Landspítalanum. „Einhverjar taka þó gildi fyrr, til dæmis uppsagnir geislafræðinga á röntgendeildinni sem taka gildi 1. september og þá eru einhverjar dagsettar 1. nóvember.“

Samkvæmt þessum upplýsingum virðist sem aðgerðasvið spítalans verði verst úti, fari svo að allar uppsagnirnar taki gildi. „Hlutfallslega er þar mest um uppsagnir hjúkrunarfræðinga, en á sviðinu er mikið af sérhæfðum störfum sem tengjast skurðaðgerðum, svæfingu og gjörgæslu.“

Þá munu aðstæður röntgendeildar versna til muna. „Við höfum miklar áhyggjur af þeirri deild, enda hefur næstum helmingur geislafræðinga hefur sagt upp störfum,“ segir Bára.

Allar uppsagnir vekja áhyggjur

Athygli vekur að 100% lífeindafræðinga á skurðlækningasviði hafa sagt upp störfum, en að baki þeirrar tölu eru þó aðeins tveir starfsmenn. Þær uppsagnir gætu þó haft töluverð áhrif. „Þetta eru mjög sérhæfðir starfsmenn og brotthvarf þeirra væri mikil blóðtaka fyrir spítalann,“ segir Bára en tekur fram að allar uppsagnir séu vitaskuld áhyggjuefni, sama hvaða svið sé um að ræða.

Á kvenna- og barnasviði hefur fjöldi uppsagna lækkað úr 30 í 27. Enginn hefur þó dregið uppsögn sína til baka á því sviði heldur skýrist lækkunin af tæknilegum ástæðum. „Tveir starfsmenn, sem voru í starfi á öðrum sviðum, sögðu upp starfi sínu þar en héldu áfram starfi á kvenna- og barnasviði. Við þurftum að draga þá frá auk starfsmanns sem sagði upp tímabundinni ráðningu og er því ekki meðtalinn.“

Ganga til liðs við sjálfseignarfélag

Andrúmsloftið á Landspítalanum er spennuþrungið og einkennist af mikilli óvissu, að sögn Guðríðar Kristínar Þórðardóttur, formanns hjúkrunarráðs spítalans. Hún segir marga hjúkrunarfræðinga hyggja á að ganga til liðs við nýtt sjálfseignarfélag, sem leigja myndi út þjónustu hjúkrunarfræðinga til spítalans. „Nokkur fjöldi hefur þegar gert það og ég er hrædd um að fleiri muni fylgja á eftir, náist ekki sættir sem fyrst í þessari deilu.“

Guðríður segir hjúkrunarráðið gjalda varhug við þeirri þróun. „Þá eru hjúkrunarfræðingarnir ekki lengur starfsmenn stofnunarinnar og hafa því aðrar skyldur gagnvart henni sem slíkri og rekstri hennar. Fagleg framþróun, uppbygging göngudeildarþjónustu og önnur þjónusta, sem ekki er lífsnauðsynleg en maður vill samt sem áður veita, gæti verið í hættu vegna þessa.“

Hún nefnir sem dæmi eftirfylgni við langveika og syrgjendur. „Með tilkomu starfsmannaleiga væri Landspítalinn ekki lengur að kaupa slíka þjónustu,“ segir Guðríður en tekur fram að hún efist ekki um að hjúkrunarfræðingarnir muni halda áfram að sinna sjúklingunum vel.

Margir á leið í aðra vinnu

„Nú bíða allir og sjá hvort að leysast muni úr kjaradeilunni áður en gerðardómur fellur, eða hvort að hann falli þann 15. ágúst, og þá hverju hann skilar. Mikil óvissa ríkir um hvort þetta dugi til að snúa við þessum gífurlega fjölda uppsagna,“ segir Guðríður.

Hún segir þó ljóst að allir muni ekki draga uppsagnir sínar til baka. „Ég veit mörg dæmi þess að fólk sé búið að fá sér aðra vinnu, hvort sem það er erlendis, hjá borginni eða í einkageiranum. Þarna erum við að tala um áratuga starfsreynslu sem hverfur frá okkur og þetta er gífurlegur missir fyrir spítalann, sem mun eiga sér stað hvernig sem kjaradeilunni lýkur.“

Horfa til ákæru með ugg í brjósti

Óánægja hjúkrunarfræðinga lýtur ekki aðeins að kjarabaráttunni. Augu margra innan stéttarinnar beinast að ákæru ríkissaksóknara á hendur hjúkrunarfræðingi, fyrir manndráp af gáleysi. „Þar á viðkomandi yfir höfði sér sjö ára frelsissviptingu fyrir mistök í starfi. Það er raunveruleiki sem við lifum öll við. Hver ber ábyrgðina þegar við erum látin vinna undir svona miklu álagi?“ spyr Guðríður.

Hún segir rannsóknir hafa sýnt að mannekla og álag leiðir af sér aukna hættu á mistökum starfsmanna. „Þess vegna setja hjúkrunarfræðingar hnefann í borðið. Það þarf að leiðrétta launin og gera hjúkrun að samkeppnishæfum starfsvettvangi. Það er orðin svo mikil uppsöfnuð þreyta eftir þetta gífurlega álag sem verið hefur á okkur síðustu ár, og þá einkum undanfarna mánuði. Loks standa hjúkrunarfræðingar svo frammi fyrir þessu skilningsleysi stjórnvalda sem virðast ekki geta metið þá að verðleikum.“

Ljóst er að aðgerðasvið spítalans verður illa úti, muni allar …
Ljóst er að aðgerðasvið spítalans verður illa úti, muni allar uppsagnir taka gildi. mbl.is/Heiðrún Björt
Guðríður Kristín Þórðardóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans.
Guðríður Kristín Þórðardóttir, formaður hjúkrunarráðs Landspítalans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert