Tveir gistu fangageymslu á Akureyri

Frá Akureyri.
Frá Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tveir gistu fangageymslu lögreglunnar á Akureyri í nótt, en að öðru leyti fór allt þar vel fram. Bæði í gær og í dag hefur þó verið gríðarlega mikið að gera, enda bærinn troðfullur af fólki. Samkvæmt lögreglunni er erfitt að segja til um fjöldann í bænum, en aðstandendur hátíðarinnar Ein með öllu höfðu gert ráð fyrir að samtals yrðu á bilinu 20 til 25 þúsund manns á ungmennalandsmóti UMFÍ og hátíðinni í bænum nú um helgina. Staðfesti lögreglan að ekkert kynferðisbrot hefði komið upp um helgina.

Á Siglufirði fer Síldarævintýrið fram, en lögreglan á staðnum segir að bæði í dag og í gær hafi allt gengið vel. Einhverjir pústrar hafi verið í gær, en að öðru leyti rólegt. Veðrið á Siglufirði var heldur leiðinlegt í gær, en nú hefur stytt upp og mun betra útlit fyrir helgina. Sagði lögreglumaður á vakt að erfitt væri að meta fjölda gesta, þar sem margir væru í sumarhúsum og gestir í heimahúsum. Það kæmi ekki almennilega í ljós fyrr en í kvöld og á morgun við söng og brennu hversu margir væru í bænum. Fljótt á litið virtist þó eitthvað minna um gesti en oft áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert