Glæfraleikur við Jökulsárlón

Starfsmaðurinn reynir að rökræða við ferðamanninn um að koma um …
Starfsmaðurinn reynir að rökræða við ferðamanninn um að koma um borð. Mynd/Magnús Jóhannsson

Tveir ferðamenn skelltu sér til sunds í Jökulsárlóni í gær og syntu í ísköldu vatninu í nokkra stund. Annar þeirra fór talsvert út á vatnið þar sem hann klifraði upp á ísjaka, en starfsmaður á staðnum kom á báti og reyndi að fá hann til að koma í bátinn. Hlustaði hann ekki á ráðleggingar hans heldur stakk sér aftur til sunds. Stuttu seinna var ísjakinn kominn mikið lengra út á vatnið. Ferðaþjónustuveitandi segir að ekki megi mikið koma upp á í aðstæðum sem þessum svo illa fari.

Magnús H. Jóhannsson, eigandi ferðaþjónustunnar Mudshark á Hellu, var með hóp ferðamanna á svæðinu þegar mennirnir tveir skelltu sér til sunds. Magnús segir að þeir hafi fyrst farið stutt frá landi og prílað upp á lítinn jaka og stungið sér þaðan og farið aftur í land.

Eldri maðurinn hafi síðan ákveðið að synda aftur út og í þetta skiptið talsvert lengra. Þar að auki var straumurinn frá landi og rak ísjakana til vesturs frá aðalbílastæðinu þar sem selt er í ferðir á vatnið. Segir hann til fyrirmyndar að starfsmaður hafi strax farið á eftir honum á litlum bát, en ferðamaðurinn hafi ekkert hlustað á ráðleggingar hans og stokkið af ísjakanum og haldið áfram að synda í vatninu. Segir Magnús að fljótlega eftir að maðurinn fór af jakanum hafi hann rekið talsvert lengra frá landi og þá hafi verið mun erfiðara fyrir hann að komast í land.

Ferðamennirnir fóru fyrst út á lítinn jaka rétt við land …
Ferðamennirnir fóru fyrst út á lítinn jaka rétt við land og stungu sér þaðan. Eldri maðurinn fór svo nokkuð lengra í seinni ferð sinni. Mynd/Magnús Jóhannsson

„Það getur allt gerst,“ segir Magnús um svona athæfi, en hann bendir á að vatnið sé ískalt og menn endist að jafnaði ekki margar mínútur á sundi við þannig aðstæður. „Ef það fer illa, þá eru 300 manns að fylgjast með þér drukkna,“ segir hann og bætir við að menn geri sér mögulega ekki grein fyrir því að mjög erfitt geti verið að bjarga fólki við þessar aðstæður ef jakarnir séu þétt saman.

Á undanförnum árum hefur reglulega komið upp að fólk stingi sér til sunds eða stundi glæfraleiki á lóninu. Þannig ákváðu tveir erlendis ferðamenn að fíflast hálfnaktir á ísjökum á lóninu í mars og ferðamenn festust á jaka árið 2013. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert