Enn nokkur sæti laus frá Eyjum

Flugfélagið Ernir og Flugfélag Íslands fljúga til Eyja í dag. …
Flugfélagið Ernir og Flugfélag Íslands fljúga til Eyja í dag. Enn eru nokkur sæti laus hjá Flugfélagi Íslands.

Samtals 20 flugferðir eru frá Vestmannaeyjum í dag, en það er 18 ferðum meira en á venjulegum dögum. Heildarfjöldi flugsæta er rétt tæplega 600, en uppbókað er í flest þeirra. Á venjulegum degi eru aðeins 38 sæti í boði til og frá Eyjum. Bæði Flugfélagið Ernir og Flugfélag Íslands eru með áætlunarflug í dag.

Samkvæmt upplýsingum frá Erni var fyrsta ferðin farin frá Reykjavík strax klukkan 6:15 í morgun og mun sú síðasta ekki lenda fyrr en hálf ellefu í kvöld. Í heild fer flugfélagið 13 ferðir í dag, en á venjulegum degi er félagið með eina áætlunarflugið til Vestmannaeyja og flýgur þá tvisvar. Er þetta að öllum líkindum stærsti dagur ársins hjá félaginu.

Mbl.is fékk þær upplýsingar að uppbókað væri í öll flug hjá félaginu og að ekki væri hægt að bæta fleiri flugum við. Þó var tekið fram að margir farþegar skili sér nokkuð óreglulega í flug dagsins, sérstaklega morgunflugin og þá losnar oft um nokkur sæti. Besta leiðin til að fylgjast með lausum sætum er að kíkja niður á völl og fá að vita þá um leið hvort eitthvað er laust, rétt áður en vélarnar fara í loftið.

Flugfélag Íslands flýgur alla jafna ekki til Vestmannaeyja, en í kringum verslunarmannahelgina flýgur félagið bæði á föstudegi og á mánudegi. Félagið fer samtals sjö ferðir í dag til Eyja og eru samtals tæplega 350 sæti í boði. Nú þegar eru yfir 280 bókuð, þannig að eitthvað er enn um laus sæti.

Félagið flýgur einnig til Akureyrar, en þaðan eru sex flug í dag og eru 290 manns bókaðir í þau. Samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk er þetta stærsti sumardagurinn hjá félaginu, en að dagarnir í kringum jólin séu þó alla jafna aðeins annasamari. Samtals flýgur flugfélagið 24 flug í dag, en það er um 30% meira en á venjulegum degi og munar þar mest um ferðirnar sjö til Eyja sem ekki eru farnar að jafnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert