Um 40 kópar aflífaðir á 20 árum

Kópurinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal.
Kópurinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal. mbl.is/Ómar

Um 40 selskópar hafa verið aflífaðir í Húsdýragarðinum frá því að Selatjörnin opnaði í garðinum árið 1990. Selirnir hafa kæpt frá því að þeir urðu kynþroska um árið 1995 og hefur því þurft að aflífa kópa í um það bil 20 ár. Að jafnaði hefur tveimur kópum verið lógað árlega seinni part sumar þegar urturnar vilja ekkert lengur með þá að hafa.

Það er í höndum yfirdýrahirðis Húsdýragarðsins og annarra dýrahirða að ákveða hvaða dýr skuli aflífa og hver ekki, og var það alfarið ákvörðun starfandi yfirdýrahirðis að aflífa selskópinn vinsæla í gær. Þetta kemur fram í skriflegu svari Tómasar Óskars Guðjónssonar, forstöðumanns Fjölskyldu- og húsdýragarðsins við fyrirspurn mbl.is

Frétt mbl.is: Vilja að kópurinn fái að lifa

Selskópurinn hafði sloppið úr garðinum og var hann handsamaður af lögreglu í fyrradag á tjaldstæðinu í Laugardag og var í framhaldinu stofnaður Facebook-hópurinn „Þyrmið lífi sprettharða selkópsins“ sem er nú með tæplega 1.500 meðlimi. 

„Urtan var búinn að bíta kópinn af sér og kópurinn tekinn að horast niður enda ekkert étið í nokkrar vikur.  Fyrir lá ákvörðun dýrahirða um að halda ekki þessum kópi,“ segir Tómas en kóparnir horast niður þegar þeir hætta á spena. 

Þrír selskópar hafa verið í garðinum í sumar og eru tveir þeirra enn á lífi að sögn Tómasar en ekki hefur verið tekin ákvörðun með framhaldið. Hræið af sprettharða kópnum hefur verið urðað í Álfsnesi en hluti verður nýttur í refafóður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert