Fá ekki að skilja á Íslandi

Tveir karlmenn frá Rússlandi og Lettlandi sem gengu í hjónaband …
Tveir karlmenn frá Rússlandi og Lettlandi sem gengu í hjónaband hér á landi árið 2011 fá ekki að skilja. AFP

Tveir karlmenn frá Rússlandi og Lettlandi sem gengu í hjónaband hér á landi árið 2011 fá ekki að skilja vegna þess að ákvæði vantar í lög um hjónabönd samkynhneigðra sem samþykkt voru árið 2010. Í lögunum eru engin ákvæði sem heimila skilnað erlendra ríkisborgara sem búsettir eru erlendis. Lögmaður annars mannsins segir að skjólstæðingi hennar líði illa yfir því að vera fastur í hjónabandi án möguleika á skilnaði. Málinu verður stefnt fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í haust. 

Sagt var fyrst frá málinu í Fréttablaðinu í síðustu viku.

Í samtali við mbl.is segir Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, að hún hafi heyrt af málinu í fjölmiðlum og að lögin verði endurskoðuð þegar þing hefst að nýju í haust.

„Við þurfum að fá yfirlit yfir það hvert vandamálið nákvæmlega er og hvort það sé eitthvað í okkar löggjöf sem hægt er að laga til að leysa þessi mál,“ segir Unnur Brá. Hún getur ekki staðfest í samtali við mbl.is að það vanti klausu í lögin. „Nei mig vantar upplýsingar um það. En við þurfum bara að greina hvort það sé einhver vandi í lögunum og ef svo er þarf að bregðast við því.“

Erfitt fyrir sálartetrið

Lára V. Júlíusdóttir er lögmaður annars mannsins. Hún segir í samtali við mbl.is að nú sé beðið eftir fyrirtöku hjá sýslumanni og síðan mun hún sækja um gjafsókn fyrir sinn skjólstæðing. „Við erum bara að sigla þessu máli úr höfn hægt og bítandi,“ segir Lára. Hún á ekki von á því að endurskoðun allsherjarnefndar skili sér fljótlega hefjist hún í haust. „Þetta tekur allt tíma og ég á ekkert von á því að það skili sér fljótlega þó það verði farið í gang með endurskoðunarvinnu í haust og hvort það myndi þá síðan hafa afturvirk áhrif. Ég ætla allavega að fara með þetta í gang og sjá svo til.“

Lára segist hafa vakið athygli velferðarnefndar Alþingis á málinu fyrir tveimur árum en hefur engin alvöru svör fengið. Hún segir það erfitt fyrir sálartetur mannanna að geta ekki endað hjónabandið.

„Í sjálfu sér er þetta hjónaband ekki viðurkennt í þeirra heimalöndum og hefur ekki áhrif á þann hátt. En það hefur áhrif á sálartetur þessara ágætu manna. Þeim líður illa yfir því að vita það að þeir eru giftir, tilheyra hjónabandi og geta ekki fengið sig lausa undan því.“

Gleymdist að setja ákvæði inn?

Málið hefur nú ratað út fyrir landssteinana og er sagt frá því á vef The Daily Mail. Þar kemur m.a. fram að Ísland sé vinsæll staður fyrir giftingar samkynhneigðra frá þeim löndum þar sem hjónabönd samkynhneigðra eru enn ólögleg. í grein The Daily Mail kemur fram að einfaldlega hafi gleymst að setja inn ákvæði sem gerir skilnað útlendinga löglegan.  

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjarnefndar.
Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjarnefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Lára V. Júlíusdóttir, hrl. og sérfræðingur í vinnurétti.
Lára V. Júlíusdóttir, hrl. og sérfræðingur í vinnurétti. Morgunblaðið/Frikki
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert