Meiri búsifjar fyrir önnur lönd en Ísland

Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðiprófessor.
Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðiprófessor. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ei­rík­ur Berg­mann Ein­ars­son, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði, segir það rétt hjá Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, að viðskiptabann Rússa muni hafa alvarlegri áhrif hér á landi en annars staðar er viðvikur vöruviðskiptum - en segir það hins vegar ekki gefa rétta mynd að halda því fram að deilan sé Íslendingum kostnaðarsömust allra.

„Við höfum verið að selja þangað fisk í allmiklum mæli og sem hlutfall af útflutningi landsins kann þetta að vera rétt, jafnvel að einhverju leyti meira en hjá mörgum öðrum,“ segir Eiríkur og heldur áfram: „Hins vegar eru mörg ríki innan Evrópusambandsins sem eiga miklu meiri viðskipti við Rússland en við, og ekki aðeins vöruviðskipti. Umfang sumra þessara viðskipta eru meiri hjá öðrum ríkjum en okkur.“

Eiríkur nefnir Eystrasaltsríkin; Eistland, Lettland og Litháen auk Rúmeníu, Búlgaríu og Finnland sérstaklega. „Þessi nágrannaríki Rússlands eiga í miklu meiri viðskiptum við Rússa en við gerum þegar fleira en aðeins vöruviðskipti eru tekin til greina, svo sem þjónustuviðskipti og fjármálaviðskipti, svo í því samhengi er svolítið bratt að segja þetta,“ segir hann. „Ég myndi halda að þetta væru meiri búsifjar fyrir þau lönd en okkur.“

Eiríkur segir deiluna vera kostnaðarsamasta fyrir þau ríki sem hafa verið í nánum samskiptum við Rússland. „Þau ríki sem eiga sögulega náin tengsl fyrir Rússland eru að glata náttúrulegum samstarfsaðila sem þau hafa átt lengi vel. Þetta er eins og við myndum missa Bretland úr okkar tengslum.“

Hann segir pólitísk áhrif mun meiri fyrir önnur ríki en Ísland, en deilan sé tiltölulega útgjaldalítil pólitískt fyrir Íslendinga.

„Friði á Íslandi jafn mikið ógnað og friði annars staðar“

Eiríkur segir deiluna augljóslega vera að magnast. „Ég var í Mosku nýlega og maður finnur mjög glöggt að þetta er ríki sem er komið ofan í skotgröf og upplifir sig vera fyrir árás. Menn eru að undirbúa sig undir átök sem er að mörgu leyti stórhættulegt ástand,“ segir hann.

Eiríkur bendir á að Rússland hafi færst frá því að vera ríki í átt að frjálslyndu lýðræði og snúið baki af þeirri braut í átt að nokkurs konar alríkisskipulagi sem sé mjög erfitt fyrir heimsmálin. „Við Íslendingar verðum að átta okkur á því að við erum hluti af þessu heimskerfi og getum ekki leyft okkur að standa fyrir utan það eins og þessi átök komi okkur ekki við,“ segir hann og heldur áfram:

„Rússar eru búnir að taka búta út úr Georgíu og Úkraínu og eru að halda áfram með það. Þetta er stórhættuleg útþenslustefna þessa ríkis og það er barnaskapur að halda að þeir séu orðnir saddir hvað það varðar. Friði á Íslandi er alveg jafn mikið ógnað og friði annars staðar. Við erum stofnaðili að NATO og þessi deila er fyrst og fremst rekin á forsendum NATO og Vesturveldanna.“

Makríll.
Makríll. mbl.is/Albert Kemp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert