Meira undir hér en annars staðar

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

„Það eru alvarlegri tíðindi fyrir okkur en fyrir aðrar Evrópuþjóðir að vera á bannlistanum. Það er ekkert annað land sem hefur jafn mikið undir. Maður veltir fyrir sér hagsmununum af því að vera ekki á þessum lista,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um ákvörðun Rússa að banna innflutning á matvælum, meðal annars frá Íslandi. Hann segir að hagsmunina af því að vera ekki á listanum verði að ræða hér heima fyrir.

„Rússlandsmarkaður hefur í áratugi verið mjög mikilvægur fyrir sjávarafurðirnar okkar og stendur undir um 5% af öllum vöruútflutningi okkar. Það eru því mjög alvarleg tíðindi ef það er þannig að Rússar ætla að banna allan innflutning en við erum að vinna í því að fá nánari upplýsingar um eðli innflutningsbannsins,“ segir Bjarni og bætir við: „Það veldur svo áhyggjum að svo virðist sem það séu takmarkaðir möguleikar á að koma vörunum á aðra markaði en við skoðum hvaða árangri við getum náð í þeim efnum.“

Viðskiptasamband Íslands og Rússlands hefur staðið í áratugi og hefur Bjarni áhyggjur af þessum sviptingum. „Ég hef áhyggjur af þróuninni á þessu áratuga viðskiptasambandi. En ég hef trú á samtalinu. Við munum ræða við rússnesk stjórnvöld og aðra þá sem geta orðið okkur að liði. Það verður að líta heildstætt á þetta,“ segir Bjarni um framhaldið. 

„Innan stjórnkerfisins munu menn áfram leita leiða til að fá skýringar og styðja við útflutninginn eins og við getum.“

Aðspurður hvernig komi til greina að styðja við útflutninginn segir Bjarni ekkert útilokað. „Það verður bara að koma betur í ljós eftir því sem málinu vindur fram. Það er ekkert útilokað enn, en það fer eftir eðli þvingananna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert