Mikilvægt að meta afraksturinn

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir það hafa verið viðbúið að Rússar myndu setja innflutningsbann á íslenskar matvörur. Tíðindin ættu ekki að koma á óvart.

„Það var auðvitað viðbúið að við færum á þennan lista. Ég vakti athygli á því fyrir ári að það að halda áfram og bæta í viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum, sem þá var ákveðið að gera, myndi skapa hættu á þessu,“ segir hún.

„Ég hef haft ákveðinn fyrirvara á þessum aðgerðum og tel mikilvægt að meta afraksturinn af þeim, hver hann nákvæmlega er. Mér hefur ekki sýnst hann vera mikill, satt að segja, þegar kemur að því að stuðla að friðsamari heimi.“

Hún segist til að mynda hafa sett fyrirvara þegar Evrópusambandið ákvað að bæta í viðskiptaþvinganirnar gagnvart Rússum þegar Minsk-samkomulagið um vopnahlé á milli Úkraínu og Rússland náðist.

„En hins vegar hefur það verið ljóst allan tímann að það gæti komið til þess að við yrðum svo beitt gagnþvingunum.“

Hún segir að miklir hagsmunir séu undir. Bannið gæti haft miklar efnahagslegar afleiðingar í för með sér. Hún væntir þess að stjórnvöld hér á landi hafi einhverja áætlun tiltæka um það hvernig bregðast eigi við þessari ákvörðun rússneskra stjórnvalda, í ljósi þess að við höfum getað átt von á þessu í meira en ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert