Vel tekið á móti heimsmeistaranum

Vel var tekið á móti Katrínu Tönju Davíðsdóttur, heimsmeistara í crossfit, í æfingaaðstöðu Crossfit Reykjavík í Faxafeni í dag, en Katrín er nýlega komin heim eftir að hafa sigrað leikana fyrir rúmlega tveimur vikum.

Fjölmenni tók á móti henni og var boðið upp á súkkulaðiköku við tilefnið, en slíkt er líklega sjaldséð sjón í æfingasalnum. Klöppuðu viðstaddir vel fyrir nýja heimsmeistaranum, auk þess sem mikið var sprellað, enda hátíðastund.

Katrín sigraði heimsleikana í crossfit í Los Angeles í Bandaríkjunum á sunnudeginum fyrir rúmlega tveimur vikum, en hún hafði fyrir lokadaginn verið í þriðja sæti, en náði í síðustu tveimur greinunum að vinna sig upp og sigra heildarkeppnina.

Meðal þeirra sem tóku á móti Katrínu í dag voru afi hennar og amma, auk fjölda æfingafélaga og vina.

Frétt mbl.is: Katrín Tanja sigraði á heimsleikunum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert