Ætlast til þess að bandamenn bregðist við

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. AFP

Það er ekki valkostur að taka til baka stuðning Íslands við viðskiptabann Evrópusambandsins og annarra vesturvelda gegn Rússlandi þrátt fyrir að Rússar hafi nú beint refsiaðgerðum sínum að Íslandi. Þetta segir Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, í samtali við mbl.is, en hann segir að ætlast sé til þess að bandamenn Íslands muni bregðast við og liðka um fyrir sölu á sjávarafurðum eins og þeir geta. Þá segir hann að skoðað verði hvort að veitt verði aðstoð til útflytjenda sem komi illa úr aðgerðum Rússa.

Gætu skoðað aðstoð við útflytjendur

Gunnar segir sem dæmi um aðgerðir til aðstoðar útflytjendum að Norðmenn hafi í einhverjum tilfellum veitt tryggingar til útflutningsfyrirtækja. „Þetta er eitthvað sem þarf að fara yfir. Ég legg áherslu á að það er ekkert útilokað í þessu, ef útflytjendur sækjast eftir einhverri aðstoð að þá verði skoðað hvað hægt er að gera.“

Aðspurður um hvort það tengist skatta eða tollamálum segir Gunnar Bragi að hann hafi óskað eftir að ræða við utanríkismálastjóra Evrópusambandsins þar sem hann ætlar að hefja viðræður um niðurfellingu á tollum á afurðum sem eru í dag tolllagðar og voru fluttar til Rússlands.  „Ég mun óska eftir að þær viðræður hefjist strax,“ segir Gunnar, en um er að ræða makríl og loðnu, auk síldar.

Ekki hafa enn borist formlegar útfærslur á umfangi refsiaðgerða Rússa en Gunnar segir að búast megi við að þær séu svipaðar og hafa verið í gildi gagnvart öðrum ríkjum síðasta árið. Ná þær til sjávarafurða og landbúnaðarafurða, þótt ákveðnar landbúnaðarafurðir séu undanþegnar.

Ekki valkostur að draga stuðning við refsiaðgerðir til baka

Gunnar segir að utanríkisráðuneytið hafi verið í viðræðum við sendiherra Rússa í dag og að í gegnum sendiráð Íslands í Rússlandi hafi verið reynt að óska eftir fundum eða samtölum við rússneska ráðamenn. Segir hann að reynt verði að fá fund með rússneska utanríkisráðherranum á fundi í Alaska í Bandaríkjunum í lok mánaðarins, en enn er óvíst hvort hann verði þar.

Aðspurður hvort það komi til greina að draga til baka stuðning Íslands við aðgerðir Evrópusambandsins og vesturvelda gegn Rússlandi segir Gunnar það ekki koma til greina. „Ég get ekki séð að það sé valkostur. Það er engin tillaga komin fram í ríkisstjórn fram að þessu og ekki heldur í utanríkismálanefnd. Þannig að það er einhugur að þetta sé með þessum hætti. Við munum að sjálfsögðu ætlast til þess að bandamenn okkar bregðist við og liðki til með markaði og aðstoði okkur að koma þessum vörum í verð ef þeir geta það,“ segir Gunnar og bætir við að rætt verði við ráðamenn í Evrópusambandinu um þessi mál á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert