Minna keypt af áfengi

Sala áfengis í vikunni fyrir verslunarmannahelgi var 0,8% minni í lítrum talið en í sömu viku fyrir ári. Samtals seldust 719 þúsund lítrar af áfengi þessa vikuna en í fyrra seldust 725 þúsund lítrar. Alls komu 127.500 viðskiptavinir í Vínbúðirnar í vikunni, sem eru 0,4% færri viðskiptavinir en í sambærilegri viku í fyrra.

Sala á föstudeginum var 2,4% minni í ár en í fyrra. Á móti kemur að salan á laugardaginn 1. ágúst var tæplega 7% meiri en á sambærilegum laugardegi í fyrra. Alls seldust tæplega 112 þúsund lítrar af áfengi þann dag, að því er fram kemur á vef ÁTVR.

Föstudagurinn fyrir verslunarmannahelgi er jafnan einn annasamasti dagur ársins og í ár var engin undantekning á því. Tæplega 260 þúsund lítrar seldust á föstudeginum og rúmlega 41 þúsund viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar. Sama dag fyrir ári seldust 266 þúsund lítrar og rúmlega 42 þúsund viðskiptavinir komu í Vínbúðirnar.

18% sölusamdráttur í Eyjum

Salan í Vínbúðinni Vestmannaeyjum var rúmlega 18% minni í ár en í fyrra og munar þar mestu um söluna á föstudeginum, sem var um það bil 25% minni í ár en í fyrra. 
Salan í Vínbúðinni Akureyri var mjög svipuð á milli ára, en þar var 0,6% aukning í sölu á milli ára. 

Salan í Vínbúðinni Egilsstöðum var 3% meiri en í fyrra. Hins vegar var salan á Flúðum 18,2% meiri en á sama tíma í fyrra.

Sala fyrstu sjö mánuði ársins er 3,3% meiri í lítrum talið í samanburði við sama tímabil í fyrra. Alls hafa selst um 11,3 milljón lítra, en á sama tíma í fyrra var salan 10,9 milljón lítra. Hafa ber í huga að sala verslunarmannahelgarinnar er að mestu í júlí í ár en í fyrra var sala föstudagsins og laugardagsins með sölutölum ágústmánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert