Ómar á undan áætlun

Ómar Ragnarsson lagði af stað frá Akureyri í gærmorgun.
Ómar Ragnarsson lagði af stað frá Akureyri í gærmorgun. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er ansi hvasst,“ heyrist í Ómari Ragnarssyni í gegnum vindinn þegar blaðamaður nær af honum tali. Ómar er á leið frá Akureyri til Reykjavíkur og er nokkuð á undan áætlun. Hann lagði af stað í gærmorgun en er kominn alla leið í Hvalfjörðinn. Þar er svo mikið hvassviðri að blaðamaður gefst upp á að reyna að heyra í Ómari í gegnum vindinn og biður hann að hringja aftur þegar hann er kominn í skjól.

Áreiðanlegur sem endranær hringir Ómar aftur þegar hann er kominn í skjól nálægt Ferstiklu. Margan myndi hrylla við tilhugsuninni að ferðast um á hjóli, þó rafknúið sé, í viðlíka veðri en Ómar lætur varla bilbug á sér finna.

„Mér gekk mjög vel í dag. Ég byrjaði daginn við Stóru-Giljá rétt fyrir sunnan Blönduós. Þetta gekk alveg rosalega vel en ég þurfti að hlaða vel af rafmagni áður en ég lagði í Hvalfjörðinn. Þetta hefst nú  sennilega en fjörðurinn er alveg hvítfyssandi.“

Þrátt fyrir veður lítur út fyrir að Ómar muni ná til höfuðborgarinnar nokkuð á undan áætlun en til stóð að hann kæmi í mark um kl. 17 á morgun. „Svo veit ég ekki með Kjalarnesið af því að það á að hvessa en þá verð ég kominn svo nálægt að ég á mikla möguleika á að fresta því að halda áfram þar sem það á að lægja aftur á morgun.“

Ómar kveðst hafa náð um 30 kílómetra meðalhraða frá Hrútafjarðarhálsi og suður í Borgarnes sem verður að teljast nokkuð gott. Gærdagurinn byrjaði hinsvegar ekki alveg jafn vel. Þegar Ómar fór hraðast náði hann 80 km/klst en þegar verst gekk fór hann á 5 km/klst.

„Það gekk alveg herfilega upp Bakkaselsbrekkuna og upp Öxnadalsheiði af því að ég var með vindinn á móti mér,“ segir hann og minnist þess að það hafi einmitt verið sami kafli sem fór með tilraunahjólið Náttfara í júlí. „Þetta hjól, Sörli, er með fimm gíra og það breytir öllu. Maður getur lallað á gönguhraða ef með þarf. Þegar ég var kominn upp á Öxnadalsheiði var björninn unninn.“

Ómar segir að þrátt fyrir erfiðleika sé hann mjög ánægður með ferðina. Hann hefur þegar náð meirihluta markmiða sinna og nú er bara að ljúka ferðinni og verða formlega fyrsti maðurinn til að hjóla frá Akureyri til Reykjavíkur á rafhjóli. Ómar er hinsvegar ekkert að flýta sér lengur, enda stefnir hann enn á að koma í mark, hjá Umferðarmiðstöð BSÍ, á sama tíma og áætlað var.

„Það er ekki útilokað að ég nái á innan við tveimur sólarhringum en þá verða allir sofandi. Ég veit af mönnum sem ætla að hjóla með mér síðasta spottann og það þýðir ekkert að gera það nema með fyrirvara svo ég setti niður klukkan fimm á morgun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert