Síldarvinnslan frestar arðgreiðslum

Síldarvinnslan.
Síldarvinnslan. mbl.is/Sigurður Bogi

Ákveðið var á aðalfundi Síldarvinnslunnar í dag að fresta því að greiða arð til hluthafa félagsins, samkvæmt heimildum mbl.is.

Aðalfundur félagsins var haldinn í Hótel Egilsbúð í Neskaupsstað í dag.

Í frétt á vef Vísis segir að ákveðið hafi verið að fresta arðgreiðslu vegna óvissu. Eins og kunnugt er hafa sjávarútvegsfyrirtæki lýst yfir töluverðum áhyggjum vegna innflutningsbanns Rússa á íslensk matvæli.

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, hefur gagnrýnt íslensk stjórnvöld harðlega í málinu og sagt að þau eigi ekki að taka þátt í því að beita Rússa viðskiptaþvingunum, heldur gæta hlutleysis í málinu. Utanríkisráðherra, og hans fólk, eigi að einbeita sér að því að gæta hagsmuna íslenskra fyrirtækja.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra skaut hins vegar föstum skotum að Gunnþóri í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni um helgina og hvatti þar Síldarvinnsluna til að taka sér engan arð á aðalfundinum, til að takast á við þá stöðu sem er uppi.

Samþykkt var á aðalfundi Síldarvinnslunnar í fyrra að greiða tvo milljarða króna í arð.

Ekki hefur náðst í Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert