Miðborgin verður lokuð bílum

Menningarnótt er fjölsóttasta hátíð landsins og af þeim sökum er …
Menningarnótt er fjölsóttasta hátíð landsins og af þeim sökum er talið nauðsynlegt að loka miðborginni fyrir umferð bíla til að gæta öryggis og tryggja aðgengi fólks. Ljósmyndari / Eggert Jóhannesson

Lokað verður fyrir bílaumferð í miðborg Reykjavíkur á meðan á Menningarnótt stendur um helgina á milli Snorrabrautar, Gömlu Hringbrautar, Ægisgötu, Mýrargötu og Sæbrautar frá Snorrabraut til að tryggja öryggi og aðgengi. Boðið verður upp á ókeypis strætó og skutluferðir til þess að gestir komist leiðar sinnar.

Í tilkynningu frá Höfuðborgarstofu kemur fram að Menningarnótt sé stærsta hátíð sem haldin sé á Íslandi og það sé eini dagurinn sem þörf þykir á svo umfangsmiklum götulokunum. Þær þjóni þeim tilgangi að tryggja öryggi gangandi og akandi vegfarenda. Lokunarsvæðið þjóni einnig þeim tilgangi að halda götum greiðum til þess að sjúkrabílar, lögreglubílar og slökkviliðsbílar geti auðveldlega komist að ef þess þarf.

„Það er ábyrgðarhluti að halda utan um öryggismál á svona stórri hátíð eins og Menningarnótt er orðin og koma rúmlega 40 stofnanir, félagasamtök og sérfræðingar að útfærslu götulokana og öryggismála s.s. lokanir, aðstoð meðan á hátíð stendur, löggæslu og aðkomu slökkviliðs sjúkrabíla, samgöngur og margt fleira,“ segir í tilkynningunni.

Leggi fjær til að komast nær

Gestir Menningarnætur eru hvattir til þess að nýta sér ókeypis strætósamgöngur, hjóla eða ganga í bæinn. Strætó ekur að og frá Hlemmi, Hallgrímskirkju og Gömlu Hringbraut gegnt BSÍ. Þeir sem vilja koma á bíl geta nýtt þjónustu sem var í fyrsta skipti í boði í fyrra undir slagorðinu „Leggjum fjær og komumst nær“. Hægt er að leggja á stórum bílastæðum í Borgartúni og við Kirkjusand og taka svo ókeypis skutlu sem gengur á milli bílastæðanna og miðborgar reglulega frá kl. 12-01. Með því að nýta sér strætó eða skutlur frá bílastæðum kemst fólk mun nær hátíðarsvæðinu heldur en hægt er ef reynt er að leggja sem næst miðborginni.

Eftir að flugeldasýningu lýkur tekur við sérstök leiðartafla strætó sem miðar að því að koma fólki hratt og örugglega heim úr miðborginni. Dagskrá Menningarnætur lýkur eftir flugeldasýninguna um kl. 23:10.

Sérstök bílastæði fyrir fatlaða og hreyfihamlaða eru á Skúlagötu, Túngötu og við Hallgrímskirkju. Einnig verður hægt að taka leigubíl inn á Skólavörðuholt, Skúlagötu, Túngötu og BSÍ. Sérstök salerni fyrir fatlaða eru á nokkrum stöðum á hátíðarsvæðinu. Nánari upplýsingar eru á www.menningarnott.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert