Hvetur til samræmingar samninga

Sjúkrahótelið er fyrsta nýbyggingin af fjórum í nýjum Landspítala og …
Sjúkrahótelið er fyrsta nýbyggingin af fjórum í nýjum Landspítala og stefnt er að því að henni verði lokið á vormánuðum árið 2017. Teikning af sjúkrahótelinu

Embætti Landlæknis hefur lokið úttekt á sjúkrahóteli Heilsumiðstöðvarinnar við Ármúla, þar sem farið var ítarlega yfir gæði og öryggi þjónustu sjúkrahótelsins. Þar kemur fram að þjónustan sem veitt er á sjúkrahótelinu sé góð en hvatt er til samræmingar samninga og endurskoðunar.

„Forráðamenn Heilsumiðstöðvarinnar fagna niðurstöðu Landlæknisembættisins, sem sýnir svart á hvítu að almennt séu þessi mál í góðu lagi hjá Heilsumiðstöðinni og segir í úttektinni: „Í heild er sú þjónusta sem veitt er á sjúkrahótelinu góð.“ Þá er farið yfir að þær framkvæmdir sem staðið hafa yfir við endurbætur á hótelinu verði mjög til bóta, þó vissulega hafi þær haft tímabundin truflandi áhrif á starfsemina,“ segir í tilkynningu frá Heilsumiðstöðinni. 

Í úttektinni segir að ákveðins misræmis gæti í samningi Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) við Heilsumiðstöðina annars vegar og Landspítala-Háskólasjúkrahús (LSH) hins vegar. „Það getur skýrt að hluta þá samstarfsörðugleika sem upp hafa komið milli Heilsumiðstöðvarinnar og Landspítala-Háskólasjúkrahúss,“ segir í tilkynningunni.

Eins og fram hefur komið byggir gagnrýni Land­spít­al­ans gagn­vart sjúkra­hót­el­inu á því að stjórn­end­ur Land­spít­al­ans virðast í grunn­inn ósátt­ir við upp­legg Sjúkra­trygg­inga sem bygg­ir á samn­ingi um rekst­ur sjúkra­hót­els.

„Forráðamenn Heilsumiðstöðvarinnar taka niðurstöður úttektar embættis Landlæknis alvarlega, ekki síst ábendingar um framkvæmdir við húsið og misræmi í samningum milli aðila. Endurskoðun þeirra, eins og embætti Landlæknis bendir á, þannig að þeir séu samræmdir og fullnægi kröfum og væntingum beggja samningsaðila eru mikilvægt atriði sem taka verður á.“

Þá segir að allar ábendingar sem komi frá embætti Landlæknis verði teknar til ítarlegrar skoðunar hjá Heilsumiðstöðinni með það fyrir augum að bæta gæði og öryggi þjónustu sjúkrahótelsins, bæta og auka samstarfið við LSH og tryggja að þeir sem nýta sér þjónustu Heilsumiðstöðvarinnar upplifi ánægjulega og árangursríka dvöl þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert