Sat fastur í þjófavarnarhliðinu

Myndin er sviðsett og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum …
Myndin er sviðsett og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/Rax

Þrír erlendir karlmenn notuðu öflugan segul sem einn þeirra hafði innanklæða til að eyðileggja þjófavörn á vörum í Hagkaupum á Selfossi í gær. Tveir þeirra komust í gegnum þjófavarnarhlið verslunarinnar en ekki vildu betur til en svo fyrir þann þriðja að segulstálið festist við hliðið á leiðinni út.

Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir að mennirnir hafi stolið snyrtivörum, rakspíra og öðru slíku að andvirði um 30.000 króna. Hann man ekki til þess að hafa heyrt af neinu í líkindum við þessa aðferð þjófanna. „Þetta er svona svolítið spes, eins og menn segja,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Töluvert mál var að losa manninn frá þjófavarnarhliðinu í versluninni, svo öflugur var segullinn, að sögn Þorgríms Óla. Lögreglumenn prófuðu segulinn ofni þegar á lögreglustöðina var komið og reyndist heljarinnar mál að losa hann aftur.

„Þegar þeir náðum honum loksins af fór málningin með,“ segir hann.

Maðurinn var handtekinn en félagar hans tveir komust undan. Honum var sleppt að lokum skýrslutökum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert