Brotist inn í Landmannalaugum

Frá tjaldsvæðinu við Landmannalaugar.
Frá tjaldsvæðinu við Landmannalaugar. mbl.is/Brynjar Gauti

Aðkoma skálavarða í Landmannalaugum að klósetthúsinu var ekki skemmtileg í morgun, en búið var að brjóta upp aðstöðugjaldskassa og þrjá sturtusjálfsala. Nýttu þjófarnir til þess steypustyrktarjárn, en þetta þýðir að helmingur sturtanna í Laugum verður ónothæfur í allavega vikutíma.

Elíza Lífdís Óskarsdóttir, skálavörður í Landmannalaugum, segir í samtali við mbl.is að ekki sé um mikla fjármuni að ræða, enda séu aðeins settir nokkrir hundraðkallar í hvern sjálfsala eða aðstöðugjaldskassann. „Þetta voru í mesta lagi einhverjir þúsund kallar,“ segir hún.

Það sé aftur á móti bæði leiðinlegt og tímafrekt að þurfa að útvega varahluti í sjálfsalana og þá geti þetta skapað talsverða örtröð umfram það sem vanalega er til að komast í sturtu á svæðinu.

Aðstöðugjaldskassinn er ætlaður þeim sem nýta aðstöðuna á svæðinu en ætla ekki að gista og hafa því ekki greitt önnur gjöld. Sturtusjálfsalarnir virka þannig að fólk lætur fimm hundrað kalla í sjálfsala til að fá 5 mínútur af heitu vatni til að baða sig.

Í nótt gistu um 250-300 manns á svæðinu að sögn Elízu. Hún segir einu mannaferðirnar sem vitað sé til um í nótt hafa verið hóp átta Íslendinga á tveimur jeppum sem komu milli fjögur og fimm í nótt. Segir hún líklegast að þeir hafi verið á lítið breyttum gráum Land cruiser 60 jeppa sem var án filmu og dökkum eða vínrauðum Jeep bifreið á 35 eða 38 tommu dekkjum. Biður hún viðkomandi aðila um að láta vita ef þeir urðu varir við eitthvað athugavert á þessum tíma þegar þeir voru á svæðinu.

Það var ekki skemmtileg aðkoma sem beið okkar í morgun inni á klósetthúsi. Einhver/jir höfðu tekið sér steypustyrktarjá...

Posted by Landmannalaugar on Sunday, 23 August 2015
Landmannalaugar eru meðal vinsælustu viðkomustaður ferðamanna á hálendinu.
Landmannalaugar eru meðal vinsælustu viðkomustaður ferðamanna á hálendinu. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert