„Sjálfsmorðstilraun stjórnmálamanna“

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. mbl.is/Golli

„Þetta er besta samfélag í heimi. Besta og fallegasta. Þetta er það samfélag sem ég hef ákveðið að búa í. En þetta er ekki fullkomið, það er ýmislegt sem mætti gera betur,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

„Ég skil ekki stjórnmálamenn á Íslandi. Mér þykir vænt um þennan hóp en ég skil þá ekki. Ég tel að við eigum að vera betri við þá, þá kannski stjórna þeir betur. Sem dæmi hafa þeir vannært heilbrigðiskerfið þótt sá stjórnmálamaður sem myndi auka fjármagn í það, yrði vinsælasti stjórnmálamaður sögunnar.“

„Það er eins og það megi rekja þetta til einhvers konar sjálfsmorðstilraunar stjórnmálamanna. 90% þjóðarinnar vildi frekar kaupa ný tæki fyrir heilbrigðiskerfið, frekar en að bora í gegnum Vaðlaheiðina.“

Hann viðurkennir að hafa notað aðeins of sterkt tungumál í gegnum tíðina í gagnrýni sinni á stjórnmálamenn. „Ég hef notað of sterkt tungumál þegar ég ásakaði stjórnmálamenn um að stuðla að dauða fólks, því það hafa þeir ekki gert. En þeir hafa í klaufaskap sínum stuðlað að því að við erum ekki eins vel í stakk búin til að takast á við sjúkdóma og meiðsli og við hefðum getað verið,“ segir Kári.

„Mér finnst það hafa verið smá vakning í samfélaginu um að hlúa betur að heilbrigðiskerfinu því að lokum erum það við sem berum ábyrgð á því sem þjóð. Það erum við sem höfum kosið þetta fólk til að stjórna okkur, og suma höfum við kosið endurtekið.“

Jáeindaskanninn táknmynd og nytjatæki

Hann segir fjárframlög til heilbrigðiskerfisins ekki hafa fylgt eftir framförum í læknavísindum. „Læknavísindin hafa þróast mikið á síðustu árum en við höfum ekki fylgt því eftir. Jáeindaskanninn er dæmi um tæki sem notað er daglega á flestum sjúkrahúsum í heiminum. Í dag eru alls konar aðferðir til við að takast á við krabbamein sem greint er snemma með jáeindaskanna, en væri ekki hægt að greina með öðrum hætti.

Aðspurður hvers vegna hann hafi rætt svo mikið um jáeindaskannann undanfarin ár segir Kári: „Ég hef notað jáeindaskannann sem bæði raunverulegt dæmi og sem symbol um það sem okkur vantar. Þegar Íslensk erfðagreining gefur skannann, er það ekki bara tæki heldur erum við að sýna fordæmi um það sem hægt er að gera fyrir tiltölulega lítið fé. Þetta varðar mikilvægan hlut í staðin fyrir til dæmis Vaðlaheiðagöngin eða kísilver á Bakka.

„Þetta er mikið fé fyrir Íslenska erfðagreiningu en ekki í samhengi við fjárlög.“

Kári segir síðar að hann hafi haft frumkvæði af því að ÍE gæfi skannann. „Þetta er það sem ég lagði til, ég tók ákvörðun um þetta.“

Við afhendingu jáeindaskannans.
Við afhendingu jáeindaskannans. Vilhelm
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert