Meiri hiti en undanfarnar vikur

Frá Skaftafelli.
Frá Skaftafelli. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hitinn í Skaftafelli er 20,6 gráður í dag samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands en hitinn hefur ekki farið yfir 20 gráður á landinu undanfarnar vikur eða frá því í fyrrihluta júlí. Fram kemur á veðurbloggi Trausta Jónssonar veðurfræðings að hlýrra loft sé að koma yfir landið úr austri.

„Það má kalla þetta smá hitabylgju. Við höfum fengið voða lítið af þessu í sumar,“ segir Haraldur Eiríksson veðurfræðingur hjá Veðurstofunni. Sumarið hafi verið skást á suðvesturhorninu en frekar dapurt fyrir norðan og austan. Spurður um spána framundan segir hann að það hangi regnsvæði yfir Vesturlandi en það sé að þokast í vestur. Það dragi úr regninu seinnipartinn.

„Spáin gerir ráð fyrir að það verði allavega sól fyrripartinn á morgun en síðan verða hugsanlega einhverjir skúrir seinnipartinn en hlýtt áfram,“ segir Haraldur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert