Hafa gengið frá kaupunum

Bandaríkjamenn hafa gengið frá kaupum á húseigninni að Engjateigi 7 í Reykjavík en stefnt er að því að flytja sendiráð Bandaríkjanna þangað af Laufásvegi þar sem það hefur verið til húsa allt frá árinu 1941 þegar það var sett á laggirnar. Þetta staðfestir Kristinn Gilsdorf, upplýsingafulltrúi sendiráðsins, í svari við fyrirspurn frá mbl.is.

Húseignin við Engjateig var áður í eigu verktakafyrirtækisins Ístaks og hýsti til skamms tíma höfuðstöðvar þess. Húsið er rúmlega 2.000 m2 að flatarmáli, byggt árið 2002. Áður en sendiráðið getur flutt í nýja húsnæðið þarf hins vegar að gera ýmsar breytingar á því svo það henti starfseminni og uppfylli kröfur sem utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna geri.

Þá hefur ekki verið gengið frá skipulagsmálum gagnvart Reykjavíkurborg vegna þeirra breytinga sem gera þarf á húsinu að sögn Kristins. 

Í tilkynningu, sem Ístak sendi Kauphöll Íslands fyrir helgi kom fram að verðmæti samningsins væri sem nemur rúmum 4,3 milljörðum króna. Inni í því eru bæði kaupin á húseigninni og breytingar á henni. Þar sagði ennfremur að framkvæmdir hæfust í næsta mánuði og að þeim yrði lokið innan þriggja ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert