Peningunum ekki hent út í geim

Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslendingar væru ekki að henda peningum út í geim með því að gerast aðilar að evrópsku geimstofnuninni ESA heldur að fjárfesta í menntun og innviðum, að sögn Sævars Helga Bragasonar, ritstjóra Stjörnufræðivefsins. Framlög Íslands yrðu tiltölulega lág og þau fengjust margfalt til baka.

Í viðtali við mbl.is sagði Mark McCaughrean, yfirmaður vísindarannsókna og geimkönnunar ESA, að Íslendingar gætu lagt sitt af mörkum til stofnunarinnar, til dæmis á sviði jarðfræði og loftlags- og umhverfisathugana. Sævar Helgi tekur undir þetta og segir að öll ríki hafi eitthvað fram að færa til stofnunar eins og ESA. 

Aðildin væri ekki dýr miðað við margt annað. Sem dæmi nefnir hann að Sundlaug Álftarness sé tvöfalt dýrari en það sem aðild að ESA gæti kostað Ísland á ári. Þau framlög fengjust margföld til baka í formi verkefna fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir. Þannig gæti aðild skapað grunn fyrir hátækniiðnað og verið lyftistöng fyrir nýsköpunarfyrirtæki í landinu.

„Það er ekki eins og það sé verið að henda peningunum út í geim heldur er verið að fjárfesta í menntun, atvinnutækifærum og hátækniiðnaði sem er væntanlega það sem við viljum. Þetta væri jafnvel góð leið til að fá fólk heim til Íslands sem er búið að mennta sig í hlutum sem tengjast geimtækni. Það er fullt af Íslendingum sem fást við hitt og þetta sem því tengist hér og þar. Þeir fengju loksins einhverja ástæðu til að flytja hingað heim og gera eitthvað skemmtilegt,“ segir hann. 

Íslensk börn gæti dreymt um að verða geimfarar

Sævar Helgi segist vita til þess að fulltrúar ESA hafi að minnsta kosti rætt við fulltrúa Nýsköpunarmiðstöðvar fyrir rúmum tíu árum en ekkert hafi komið út úr þeim viðræðum um mögulega aðild Íslands að stofnuninni af einhverjum ástæðum.

Hann bendir ennfremur á að aðild gæti verið gulrót bæði fyrir krakka og menntun í landinu. Geimkönnun sé sérlega vel til þess fallin að veita fólki innblástur til að leita í tækni- og vísindamenntun. Í Bandaríkjunum sé geimvísindastofnunin NASA alltaf í fyrsta sæti yfir draumavinnustaðinn fyrir fólk í verkfræðinámi.

„Ef Ísland væri í ESA þá gætum við í fyrsta skipti svarað spurningunni hvort maður geti orðið geimfari játandi. Það er frábær gulrót fyrir þá sem dreymir um eitthvað svona til að fara verkfræði- eða vísindanám sem hann eða hún hefur ekki í dag, því miður,“ segir Sævar Helgi.

Fyrri frétt mbl.is: Gætum lagt okkar fram til geimkönnunar

Vísindamenn við geimstofnun Evrópu (ESA) í Darmstadt í Þýskalandi fylgjast …
Vísindamenn við geimstofnun Evrópu (ESA) í Darmstadt í Þýskalandi fylgjast með för Rosetta geimfarsins á braut um halastjörnu. Íslendingar gætu tekið þátt í slíkum verkefnum með aðild að ESA. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert