Opna fjöldahjálparstöð á Seyðisfirði

Norræna við Seyðisfjörð. Mynd úr safni.
Norræna við Seyðisfjörð. Mynd úr safni. Pétur Kristjánsson

Seyðisfjarðardeild Rauða krossins opnaði í kvöld fjöldahjálparstöð fyrir ferðamenn vegna úrhellisrigningar í bænum. Bakvakt Neyðarmiðstöðvar Rauða krossins tók á móti tilkynningunni en hún var í kvöld mönnuð sjálfboðaliða Eyjafjarðardeildar á Akureyri.

Guðjón Sigurðsson, formaður deildarinnar, segir þetta gert til að hýsa ferðafólk sem bíði eftir Norrænu, en ekki er hægt að tjalda á tjaldsvæði bæjarins vegna úrkomunnar. Hann segir rigningu á Dalatanga hafa verið 80 millimetra í dag og svipað á Seyðisfirði, en úrhellisrigning hefur verið á svæðinu í allan dag. Fjöldahjálparstöðin er í íþróttahúsi bæjarins.

„Þetta var bara gert til þess að hýsa ferðamenn. Nú eru 10 komnir og ég á von á að það fjölgi,“ segir Guðjón í samtali við mbl.is. Vakt verður í íþróttahúsinu í alla nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert