Hótaði fangavörðum ofbeldi og rústaði klefa

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. Ómar Óskarsson

Fangi á Litla-Hrauni hefur verið ákærður fyrir að hóta fangavörðum ofbeldi og hafa valdið eignaspjöllum á fangaklefa. Þá krefur Fangelsismálastofnun hann um skaðabætur sem nema meira en hálfri milljón króna.

Annars vegar er maðurinn ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni þegar hann hótaði fjórum fangavörðum á Litla-hrauni ofbeldi þegar þeir voru við skyldustörf í desember 2012. Fanginn er sagður hafa sagt: „fokking ég lem ykkur“.

Hins vegar er hann ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og eignaspjöll þegar hann vann skemmdir á rúðum, fataskáp, hillum, salerni, handlaug og veggljósi og hótaði tveimur fangavörðum líkamsmeiðingum þegar þeir höfðu afskipti af honum.

Fangelsismálastofnun gerir ennfremur einkaréttarkröfu á hendur fanganum og vill að hann greiði rúm 579 þúsund krónur í skaðabætur auk vaxta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert