Íslenskur „manager“-fótboltaleikur kominn út

Engin tölvugerð lið eru í leiknum og munu spilarar því …
Engin tölvugerð lið eru í leiknum og munu spilarar því aðeins geta keppt innbyrðis. Guðni telur það mikinn kost Ljósmynd/Guðni Rúnar Gíslason

Íslenska fyrirtækið Digon Games gefur út fótboltaleikinn Kickoff CM í dag. Að baki útgáfu leiksins liggur mikil og löng vinna starfsmanna, stjórnarmanna, fjárfesta og annarra sem komið hafa að leiknum. Um þriggja ára verkefni er að ræða sem er fjármagnað að mestu leyti af einkafjárfestum. Kostnaður hljóðar upp á um 150 milljónir króna.

Engin tölvugerð lið

„Þróun leiksins hefur staðið yfir í þrjú ár og kostað blóð, svita og tár,“ segir Guðni Rúnar Gíslason leikjahönnuður við Morgunblaðið.

Hann segir að leikurinn sé nokkurs konar „manager“-leikur á netinu en samt sé hann frábrugðinn þeim hefðbundnu leikjum. „Hjá okkur er um að ræða einn leikjaheim þar sem allir notendur eru saman. Það eru því engin tölvugerð lið, bara ég að spila á móti vinum mínum. Einnig stjórna notendur dagskránni alveg sjálfir. Við erum því ekki að skipuleggja leiki fyrir þig, heldur ferð þú inn í leikinn og spilar þína leiki. Það gerir leikinn óformlegan en verður líka til þess að mikil spenna getur myndast snögglega.“

Einn músarsmellur

Guðni segir að sáraeinfalt sé að skrá sig í leikinn og búa til lið. „Fólk fer inn á síðuna okkar, kickoff.is, og er leitt áfram í gegnum sáraeinfalt skráningarferli.“ Núna snúist markaðssetning leiksins um Ísland og vegna þess að flestir séu með aðgang að Facebook geti fólk skráð sig þar með einum músarsmelli. „Síðan tekur það bókstaflega nokkrar sekúndur að búa til lið, þú einfaldlega velur nafn á lið og þá er það klárt.“ Leikurinn er fyrst um sinn aðgengilegur í vafra en næsta mál á dagskrá er að gera hann kláran fyrir spjaldtölvur og síma.

Guðni segir tekjumódel leiksins vera traust. „Við teljum það okkar helsta styrkleika, fyrir utan skemmtilegan leik. Leikurinn er ókeypis en tekjumódelið er tvíþætt. Annars vegar sóttum við um einkaleyfi í Bandaríkjunum fyrir auglýsingamódel, en á ákveðnu stigi í leiknum geta notendur fengið tilboð um styrktaraðila og þá geturðu valið hverja þú getur samið við. Þetta eru þá alvöru vörumerki og við höfum samið við Ölgerðina um að greiða fyrir birtingu á þremur alþjóðlegum vörumerkjum í leiknum. Pepsi er búið að samþykkja þessa birtingu og við höldum áfram að vinna í þessu.“

Guðni er spenntur fyrir framhaldinu og segir prófanir hafa komið mjög vel út. „Við erum mjög ánægð með það. Það verður gaman að keyra leikinn í gang og sjá hver viðbrögðin verða við þessu öllu saman.“

Hægt að kaupa „flýtimeðferð“

Leikjahönnuðirnir vilja fyrst um sinn fá eins marga notendur til að spila leikinn og mögulegt er. Með því geta þeir séð hvernig notendur hegða sér í leiknum, hvað þeir gefa af sér í tekjum og fleira í þeim dúr. „Það mun síðan nýtast okkur í vinnunni áfram þegar við förum í markaðssetningu erlendis,“ segir Guðni R. Gíslason.

Notendur geta einnig greitt fyrir ákveðna „flýtimeðferð“ í leiknum.

„Notendur eru þá að uppfæra einhver atriði hjá sínu liði og geta sleppt því að bíða í kannski klukkustund með því að borga. Þá greiða þeir með gjaldmiðli innan leiksins. Þó að þú getir fengið þennan gjaldmiðil innan leiksins geturðu einnig keypt hann með alvöru peningum og einhverjum hluta spilara þykir þetta áhugavert,“ segir Guðni, en þeir óþolinmóðustu geta því greitt smá gjald og sleppt því að bíða, sem getur jú verið þreytandi.

www.kickoff.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert