Strætó í öngstræti

Stjórnendur Strætó segja að erfitt sé að meta á þessu …
Stjórnendur Strætó segja að erfitt sé að meta á þessu stigi hvað svona aðgerðir myndu þýða í fjárhæðum, en til dæmis muni 5% launahækkun þýða. Ljóst sé að ef hægt væri að manna allar stöður þá myndi yfirvinna lækka verulega. mbl.is/Golli

„Það er ljóst að vinnuálag á núverandi vagnstjóra er of mikið og erfitt að reka almenningssamgöngukerfi á velvild og fórnfýsi vagnstjóra og aðeins tímaspursmál hvenær við getum ekki mannað allar vaktir,“ segir í minnisblaði Strætó vegna mannauðsmála. 

Minnisblaðið var sent fyrr í þessum mánuði til sveitarfélaganna sex sem eiga Strætó bs., en það eru Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes og Mosfellsbær.

Framkvæmdastjóri og fjármálastjóri Strætó segja í minnisblaðinu, að á undanförnum árum hafi Strætó farið hallloka í samkeppni um ökumenn með meirapróf. Því sé lagt til að aukinn kraftur verði settur í að hefja vagnstjórastarfið til hærri metorða þannig að auðvelt verði að ná í góða ökumenn.

„Mikil samkeppni er um ökumenn með meirapróf og hefur aukning erlendra ferðamanna þar mikil áhrif á, en einnig hefur tíðni ferða verið aukin í almenningssamgöngum í samræmi við samkomulag ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.“

Bent er á, að undanfarin ár hafi þurft að manna margar stöður með yfirvinnu, sem sé dýrt, óhagkvæmt og auki hættu á slysum.

„Staðan í sumar hefur verið með versta móti og vantaði á milli 50 til 60 stöðugildi til að hægt væri að manna allar vaktir. Þetta var leyst með því að ökumenn unnu í sumarfríi, tóku að sér aukavaktir og ökumenn voru fengnir að láni frá verkstökum,“ segir í minnisblaðinu. 

Stjórnendur Strætó leggja til að gripið verði til sértækra aðgerða. M.a. að ráða ökumenn í gegnum starfsmannaleigur og hefja vagnstórastarfið upp á hærri stall, gera það eftirsóknarverðara. Þetta þýði að breyta þyrfti launakjörum, þjálfun o.fl. þáttum og gera allt starfsumhverfi þeirra eftirsóknarverðara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert