Beðið eftir nákvæmu tjónamati

Frá aðstæðum á Siglufirði.
Frá aðstæðum á Siglufirði. Ljósmynd/Þórir Kristinn Þórisson

„Þetta er komið í nokkuð eðlilegt horf. Við erum langt komnir með að hreinsa frárennslislögnina. Klárum það sennilega í dag að mestu leyti. Það lítur vel út,“ segir Birgir Ingimarsson, bæjarverkfræðingur á Siglufirði, í samtali við mbl.is spurður um stöðuna í kjölfar náttúruhamfaranna í og við bæinn fyrir helgi. Verið sé að bíða eftir matsmönnum frá Viðlagatryggingu til þess að leggja nákvæmt mat á tjónið en gróflega áætlað telur Birgir að tjónið hlaupi á um eitt hundrað milljónum.

„Ég er ekki alveg með nákvæma tölu yfir fjölda húsa sem hafa orðið fyrir tjóni en þetta eru í kringum tuttugu hús. Þetta kom á tveimur stöðum í bænum. Áin rennur í norðurhluta bæjarins og skellir sér síðan niður í miðbæinn í smá tíma og fyllir fráveitukerfið. Á sama tíma kemur skriða sunnarlega í bænum og fer yfir yfir tvær götur og garða og inn í þrjú hús þar,“ segir hann og bætir bið að þegar horft sé upp til fjallanna megi alls staðar sjá skriður.

„Þetta er alveg ótrúlegt. Það eru engar aurskriður innan fjarðar, inni í fjarðarbotni. Þetta var bara hérna vestanmegin í Hafnarfjalli og Strákum. Þessi rigning var svo staðbundin að það er með ólíkindum,“ segir Birgir. Þannig hafi hann til að mynda verið vakinn af lögreglunni aðfararnótt föstudagsins þar sem hreinsa hafi þurft rist í tjörn norðanlega í bænum sem hafði fyllst af grasi. „Ég bý frekar sunnarlega í bænum og þegar ég kom út var bara rigningarúði. þegar ég hins vegar kom úteftir var alveg kolvitlaust veður þar.“

Veðrið í dag er hins vegar allt annað að sögn Birgis. „Það er bara sól og blíða, alveg bongó. Eins og það gerist best. Það er svona eins og maður segir, gott grillveður.“ Spurður nánar um tjónið á húsum í bænum segir hann að um sé að ræða skemmdir innanhúss en ekki á húsunum sjálfum. Innréttingar, gólfefni, rafkerfi, veggklæðningar og væntanlega húsgögn. „Síðan kom mikill leir sem áin bar með sér og sandur. Síðan erum við með tvær skemmdar og óökufærar götur, Hólaveg og Fossveg.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert