Taka verði vel á móti flóttamönnum

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Flóttamenn voru til umræðu á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag en þverpólitísk tillaga var samþykkt á fundinum um að borgin óskaði eftir viðræðum við ríkisvaldið um að hún tæki við fleiri flóttamönnum. Var tillagan samþykkt með öllum atkvæðum en einn borgarfulltrúi sat hjá við atkvæðagreiðsluna. Tillagan er svohljóðandi:

„Borgarstjórn samþykkir að óska eftir viðræðum við ríkisvaldið um hlutverk og aðkomu borgarinnar að móttöku flóttafólks og lýsir sig reiðubúna til að leggja sitt af mörkum til að tryggja sem flestum öruggt skjól. Borgarstjóra er falið að hefja viðræðurnar, upplýsa borgarráð um framgang þeirra á meðan á viðræðunum stendur og leggja svo fram útfærða, tímasetta og kostnaðarmetna áætlun þegar niðurstaða liggur fyrir.“

Breið samstaða var um málið og mikilvægi þess að hjálpa fólki sem ætti í nauðum í heiminum og þyrfti af þeim sökum að flýða heimalönd sín. Talsverð umræða fór hins vegar fram um það hversu mörgum flóttamönnum væri rétt að taka við hér á landi. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, lagði áherslu á mikilvægi þess að huga einnig að Íslendingum sem ættu um sárt að binda vegna fátæktar. Þá sagði hún að allir stjórnmálaflokkar þyrftu að móta sér heildstæðastefnu í innflytjendamálum.

Borgarfulltrúar sjálfstæðismanna bentu á mikilvægi þess að standa vel að móttöku flóttamanna. Það væri lykilatriði hvernig staðið væri að þeim málum. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagði meðal annars að finna þyrfti heildstæða lausn á flóttamannavandanum í heiminum. Nærtækast væri að hjálpa flóttamönnum í nágrannaríkjum þeirra. Þá yrði einnig að hafa í huga að ekki væri ýtt undir það að flóttamenn settu sig til að mynda í hættu við að fara yfir Miðjarðarhafið til þess að komast til Evrópu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert