Tilboðið olli verulegri óánægju

Samninganefndir SFR, SLFÍ og LL áttu fund með samninganefnd ríkisins fyrir stundu en á fundinum svaraði samninganefnd ríkisins launakröfum félaganna sem lagðar voru fram í síðustu viku. Fram kemur í fréttatilkynningu frá SFR að tilboð ríkisins hafi valdið verulegri óánægju meðal fulltrúa stéttarfélaganna þriggja enda hafi það verið lítið breytt frá fyrra útspili í júní og alls ekki í takt við launakröfur félaganna sem miðuðu við nýgenginn gerðardóm um kjör hjúkrunarfræðinga og félagsmanna BHM.

„Með því tilboði sem ríkið lagði fram í dag sendir ríkið skýr skilaboð til þeirra starfsmanna sinna sem lægra eru launaðir að þeir eigi að bera mun minna úr býtum en aðrir ríkistarfsmenn. Þetta er í algjörri mótsögn við þá stefnu að hækka laun þeirra sem lægri launin hafa sem hingað til hefur verið uppi á borðum,“ segir ennfremur. Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, hafi að loknum fundinum bent samninganefnd ríkisins á að ef kjarasamningur yrði gerður á þeim nótum sem tilboð ríkisins gerði ráð fyrir yrði hann örugglega felldur í kosningu.

Þá segir að ríkissáttasemjari hafi, eftir að ljóst hafi verið að hvorugur samningsaðili myndi sveigja frá sínum kröfum, ákveðið að boðað yrði til fundar aftur í næstu viku til að taka stöðuna þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert