Vandræði húsnæðissamvinnufélaga tengd hruninu

Sigurður Bogi Sævarsson

Mörg húsnæðissamvinnufélög eru í fjárhagsvandræðum sem má rekja til efnahagshrunsins og erfiðleika við að selja búseturétti. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni um ráðstafanir vegna íbúðalána í búseturéttaríbúðum. „Til hvaða ráðstafana hyggst ríkisstjórnin grípa til að tryggja skuldurum íbúðalána í búseturéttaríbúðum sambærilega úrlausn og skuldarar í eigin húsnæði hafa nú þegar fengið með niðurfærslu verðtryggðra lána?““

Sigmundur Davíð segir í svari sínu að aðgerðir stjórnvalda frá hruni í tengslum við skuldavanda heimilanna hafa ekki náð til húsnæðissamvinnufélaga frekar en til annarra lögaðila. Þó hafa félögin getað fengið greiðslujöfnun á lánum sínum hjá Íbúðalánasjóði, enda sé sú skilmálabreyting til þess fallin að lækka húsnæðiskostnað íbúa.

„Mörg þeirra eru fjármögnuð með lánveitingum frá Íbúðalánasjóði sem hefur sett sér reglur um fjárhagslega endurskipulagningu lögaðila. Nokkur húsnæðissamvinnufélög hafa óskað eftir fjárhagslegri endurskipulagningu hjá sjóðnum.

Samkvæmt framangreindu eru mál er varða húsnæðissamvinnufélög til skoðunar, bæði lagaleg umgjörð um réttarstöðu búseturéttarhafa og rekstrarformið, sem og fjárhagsstaða þeirra,“ segir ennfremur í svari forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka