Ekki nóg að hugmyndin sé vinsæl

Vogaskóli og Menntaskólinn við Sund (MS) standa hlið við hlið …
Vogaskóli og Menntaskólinn við Sund (MS) standa hlið við hlið í Vogahverfinu mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir að hugmynd fái mikið fylgi á Betri Reykjavík þá þýðir það ekki endilega að hún verði að veruleika. Þetta segir Bjarni Brynjólfsson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Vísar hann til fyrirspurnar varðandi hugmynd sem sett var fram í fyrra um að byggja fótboltavöll á lóð Vogaskóla og var hugmyndin sú sem fékk flest atkvæði á vefnum Betri Reykjavík í nóvember í fyrra.

„Þótt hugmynd hljóti mikið fylgi á Betri Reykjavík og sé tekin til umfjöllunar hjá borginni líkt og umrædd hugmynd þýðir það ekki endilega að hún sé framkvæmd strax eða sett um leið á fjárhagsáætlun. Þetta á sérstaklega við þar sem sérstakar framkvæmdaáætlanir eru til staðar, en þannig háttar um forgangsröðun fjármuna borgarinnar til endurgerðar skólalóða. Farið var í talsverðar endurbætur á skólalóð Vogaskóla fyrir ekki svo löngu síðan eða 2008 og 2009,“ segir í svari Reykjavíkurborgar.

Í ágúst var á fundi skóla- og frístundaráðs var lögð fram hugmynd af vefsvæðinu Betri Reykjavík. dags. 28. nóvember 2014, um fótboltavelli sem eru fyrir aftan Vogaskóla verði breytt í sparkvöll. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 12. júní 2015, um hugmyndina.

Skóla- og frístundaráð samþykkti eftirfarandi málsmeðferðartillögu: Skóla- og frístundaráð felur sviðsstjóra skóla- og frístundarsviðs að taka erindi af Betri Reykjavík um boltagerði við Vogaskóla til meðferðar á samráðsvettvangi skóla- og frístundasviðs, umhverfis- og skipulagssviðs og skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar þar sem fjallað er um húsnæði og lóðir starfseininga skóla- og frístundasviðs.

Í minnisblaðinu sem Ragnar Þorsteinsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs skrifar undir segir: „Efni: Boltagerði við Vogaskóla – hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík Skóla- og frístundasvið hefur fengið til umfjöllunar af samráðsvefnum Betri Reykjavík, dags. 8. nóvember 2014 tillögu um að breyta fótboltavellinum fyrir aftan Vogaskóla í sparkvöll. Samkvæmt fjárhagsáætlun í upphafi árs 2014 var gert ráð fyrir 300 milljónum á ári í endurgerð skólalóða á árunum 2015- 2019 en í nýjustu útgáfu fjárhagsáætlunar er gert ráð fyrir 150 milljónum á ári á þessum 5 árum. Vegna þessa seinkar framkvæmdum skólalóða talsvert.

Á fimm ára fjárhagsáætlun skólalóða er ekki gert ráð fyrir að fara í endurgerð skólalóðar Vogaskóla. Til stendur að yfirfara þá áætlun á árinu 2015 og því gæti hún breyst. Ekki hefur verið gerð sérstök áætlun fyrir niðursetningu boltagerða í Reykjavík.“

Þegar mbl.is leitaði til Reykjavíkurborgar um þessa breyttu fjárhagsáætlun sendi upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar eftirfarandi upplýsingar: fjárhagsáætlun um endurbyggingu skólalóða, boltagerði á árunum 2014-2018 samþykkt af borgarstjórn 03.12.2013.

Árið 2014 300.000

Árið 2015 90.000

Árið 2016 80.000

Árið 2017 50.000

Árið 2018 50.000

Síðan var gerð breyting á fjárhagsáætlun 2015-2019 sem var samþykkt af borgarstjórn 03.12.2014

Árið 2015 150.000

Árið 2016 150.000

Árið 2017 150.000

Árið 2018 150.000

Árið 2019 150.000

Á næstu 5 árum er áætlað að endurbyggja hluta af þeim skólalóðum sem enn hafa ekki verið endurgerðar. Áætlunin miðað við 150 millj kr fjárveitingu á ári til endurbygginga skólalóða. Lóð Vogaskóla var endurgerð árið 2008 – 2009. Þá var suður- og austurhluti lóðarinnar endurgerður og komið fyrir boltavöllum fyrir fótbolta og körfubolta. Ekki er áætlað á næstu 5 árum að endurbyggja að nýju boltavelli á lóð Vogaskóla sem gerðir voru árin 2008-2009.

Samkvæmt þessu er því ljóst að ekki verður að gerð boltavallar við Vogaskóla næstu árin þrátt fyrir að hugmynd þar að lútandi hafi notið mikilla vinsæla á vefnum Betri Reykjavík þar sem borgarbúar eru hvattir til þess að koma með hugmyndir að breytingum í sínu hverfi.

Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og skipulagssviði þá er verið að reisa hús sem er 342 m² að flatarmáli á lóð Vogaskóla og mun hýsa frístundaheimili skólans.

Steypt stétt og grasflöt á yfirborði þakflatar tengist leiksvæði skólalóðar. Gert er ráð fyrir að aðstaða verði fyrir allt að 110 börn á frístundaheimilinu. Bygging frístundaheimilisins mun hafa lítil áhrif á það svæði sem börn við Vogaskóla hafa til umráða í frímínútum þar sem gert er ráð fyrir að steypt stétt og grasflöt á yfirborði þakflatar tengist leiksvæði skólalóðar.

Alls voru um 320 nemendur í 1. til 10. bekk Vogaskóla síðasta vetur samkvæmt vef skólans.

Miklar framkvæmdir eru við Menntaskólann við Sund og Vogaskóla en …
Miklar framkvæmdir eru við Menntaskólann við Sund og Vogaskóla en verið er að stækka MS og byggja frístundaheimili við Vogaskóla. mbl.is/Árni Sæberg
Skólalóð Vogaskóla þar sem verið er að byggja frístundaheimili. Malbikaður …
Skólalóð Vogaskóla þar sem verið er að byggja frístundaheimili. Malbikaður fótboltavöllur er við skólann en ekkert fótboltagerði líkt og við flesta grunnskóla borgarinnar mbl.is/Árni Sæberg
Fótboltavöllur við Álftamýrarskóla - svokallaður battavöllur
Fótboltavöllur við Álftamýrarskóla - svokallaður battavöllur Reykjavíkurborg
Fótboltavöllurinn við Vogaskóla er malbikaður
Fótboltavöllurinn við Vogaskóla er malbikaður Reykjavíkurborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert