Þriðja fyrirtakan á morgun

Á morgun fer fram fyrirtaka í máli Annþórs Kristjáns Karlssonar og Barkar Birgissonar en þeir eru ákærðir fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða samfanga þeirra á Litla-Hrauni í maí 2012. Þetta kom fram í fréttum RÚV í gærkvöldi.

Þeir Annþór og Börkur fengu fljótt stöðu grunaðra en á upptöku öryggismyndavélar má sjá þá fara inn í klefa hins látna skömmu áður en hann kenndi sér meins og lést í kjöl­farið.

Það tók lögregluna á Suðurlandi tæpt ár að rannsaka mannslátið og var það ekki fyrr en í apríl 2013 sem málið var sent til ríkissaksóknara til meðferðar.

Lítil hjálp frá þeim grunuðu

Í tilkynningu sem barst frá lögreglunni eftir málið var sent til ríkissaksóknara kom fram að rannsókn málsins hafi verið flókin og að frá upphafi hafi verið ljóst að ekki yrði að vænta sam­vinnu þeirra grunuðu.

Við rannsóknina var m.a. dómkvaddur réttarmeinafræðingur til að fara yfir gögn sem urðu til við krufningu líksins og tveir prófessorar í sálfræði til þess að greina atferli fanga á upptökum öryggismyndavéla. Þar að auki var prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands fenginn til að rannsaka þá krafta sem þurfti til að valda þeim áverkum sem voru á líkinu. Einnig voru gerðar sérstakar mælingar á hljóðburði innan fangelsisins og möguleikum vitna á að heyra það sem talið er hafa farið fram inn­an veggja fanga­klefa hins látna og ná­kvæm eft­ir­lík­ing klef­ans byggð í fullri stærð í hús­næði Lög­reglu­skóla rík­is­ins þar sem Tækni­deild Lög­reglu Höfuðborg­ar­svæðis­ins sviðsetti mögu­lega at­b­urðarás auk þess sem grunuðum var gef­inn kost­ur á að lýsa at­vik­um í klef­an­um þar. Það er því óhætt að segja að öllu hafi verið tjaldað til við rannsókn málsins.

Eiga að hafa veitt hinum látna högg á kvið

Í júní sama ár gaf ríkissaksóknari út ákæru á hendur þeim Annþóri og Berki en í henni er þeim gefið að hafa í sam­ein­ingu veist með of­beldi á fanga á Litla Hrauni og veitt hon­um högg á kvið með þeim af­leiðing­um að rof kom á milta og á bláæð frá milt­anu sem leiddi til dauða hans skömmu síðar af völd­um inn­vort­is blæðinga. 

Málið var síðan þingfest í Héraðsdómi Suðurlands þann 11. júní 2013. Athygli vakti að Börkur var fluttur með sjúkra­bíl und­ir lækn­is­hend­ur skömmu eft­ir að hann mætti til þingfestingarnar. Síðar sama dag sagði verjandi Barkar að hann hafi fengið slæmt brjósklos. Börkur og Annþór tóku báðir þá afstöðu til kærunnar en þeir hafa ávallt neitað sök.

Tók tæpt ár að finna yfirmatsmenn

Málið var síðan loks tekið fyrir í október sama ár. Þar gagnrýndu verjendur þeirra Annþórs og Barkar rannsókn málsins harðlega. Verjandi Barkar sagði jafnframt að hugsanlega hafi milta hins látna rofnað við endurlífgunaraðgerðir.

Verjendurnir kröfðust þess að dómkvaddir yrðu yfirmatsmenn til að svara spurningum vegna matsgerðar réttameinafræðingsins og sálfræðinganna sem kallaðir voru til við gerð málsins. Héraðsdómur Suðurlands féllst á þá kröfu í nóvember.

Lítið gerðist í málinu þar til við fyrirtöku 1. apríl. Þá  var kveðinn upp úr­sk­urður þess efn­is að dóm­kvadd­ir verði tveir Þjóðverj­ar sem verj­end­ur gerðu til­lögu um. Þeim var gert að fara yfir skýrslu rétt­ar­meina­fræðings í mál­inu og skila yf­ir­mati. Þá var ákveðið að dóm­kveða þrjá menn til viðbót­ar, Norðmann, Svía og Breta, til að fara yfir at­ferl­is­skýrslu sálfræðinganna.

En það var ekki fyrr en í febrúar á þessu ári sem það var formlega ákveðið við fyrirtöku málsins að rétt­ar­meina­fræðing­ar frá Svíþjóð og Nor­egi yrðu yf­ir­mats­menn í málinu.

Missa af ýmsum fríðindum innan fangelsisins

Gera má ráð fyrir því að í fyrirtökunni á morgun verði niðurstöður yfirmatsmannanna formlega lagðar fram. Samkvæmt frétt RÚV mun verjandi annars sakborningsins fara fram á að aðalmeðferð verði ákveðin í málinu.  

Á meðan bíða Annþór og Börkur á Litla Hrauni en þar afplána þeir dóm fyrir annað brot. Í samtali við mbl.is í júní sagði verjandi Annþórs það miður hversu lengi skjólstæðingur hans hafi þurft að býða eftir yfirmatsskýrslunni.

„Þetta er ofboðslega þreyt­andi. Ég er bú­inn að vera með Annþór í þessu máli frá upp­hafi, eða frá ár­inu 2012. Það er því vissu­lega leiðin­legt þegar mánuðir og ár líða án þess að nokkuð ger­ist í mál­inu,“ sagði Hólm­geir Elías Flosa­son, verjandi Annþórs í samtali við mbl.is. Hann sagði jafnframt að þetta ólokna mál kæmi í veg fyrir ýmis fríðindi innan veggja fangelsisins. 

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert