„Samkennd Íslendinga bjargaði lífi mínu“

Það er æðislegt að sjá að maður lifir í landi ...
Það er æðislegt að sjá að maður lifir í landi sem er að setja fordæmi fyrir önnur lönd. Ég vil að fleiri fái sömu tækifæri og við fengum. Ég vil að fleiri foreldrar viti að þau munu sjá börnin sín vaxa úr grasi," segir Gezim Haziri, sem kom sem flóttamaður frá Kósóvó níu ára gamall. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Gëzim Haziri var níu ára árið 1999 þegar hann kom til Íslands ásamt fjölskyldu sinni, sem var í hópi flóttamanna frá Kósóvó. Í viðtali við mbl.is segir hann frá upplifun sinni af stríði, flóttamannabúðum og einstökum og hlýjum móttökum Íslendinga.  

Síðustu minningar Gëzims frá Kósóvó eru um lítinn dal í sveit í útjaðri Pristina. „Fullorðna fólkið í kringum mig var farið að tala um að loftárásir NATO væru að hefjast eftir nokkra daga. Þetta voru reyndar gleðifréttir fyrir okkur því það þýddi að við værum að eygja von þegar okkur fannst að það væri engin undankomuleið. Það var farið að vera hættulegt að vera í sveit, þar sem það var mun berskjaldaðra svæði gagnvart árásarhernum. Afi félaga míns sem nú býr á Íslandi, var til dæmis brenndur lifandi í hlöðu vegna þess að hann neitaði að flýja og það eina sem fannst af honum eftir á var gulltennurnar hans.“ Foreldrar Gëzims og systkini ákváðu í kjölfarið að flytja til miðborgarinnar til frænda þeirra. „Daginn sem við lögðum af stað gróf ég vatnslitina mína og einn gulan bíl við ræturnar á plómutré. Þetta var það verðmætasta sem ég átti og vildi varðveita.“

Fólk var hætt að brosa

Hann segir að honum hafi fundist verst hvað enginn brosti lengur. „Pabbi var alltaf grafalvarlegur með lítið útvarp límt við eyrað að hlusta á fréttir, eða úti á svölum að reyna að sjá hvort eitthvað væri að gerast. Við áttum ekki síma þannig að við vissum ekkert um fjölskylduna sem var uppi í sveit í aðeins tuttugu mínútna fjarlægð. Við heyrðum oft um atvik þegar herinn ruddist inn í hús og tók unga karlmenn í burtu. Hundruð þessara ungmenna eru enn ófundin og fjölskyldur vita ekki hvort þau eru lífs eða liðin. Þegar pabbi var ekki að hlusta á útvarpið voru samtölin aldrei í léttari kantinum um hversu súpan var frábær eða hversu oft fólk fór í ræktina. Bróðir minn var á þessum tíma tuttugu og eins árs en frændinn var í kringum þrítugt þannig að samtalið snerist oft um það hvað við myndum gera ef herinn kæmi og vildi taka þá. Um hvort þeir ættu að fela sig inni í arninum eða hvort þeir ættu að reyna að flýja. Stór hertæki sáust á götunum á hverjum degi og ég var alltaf með fiðrildi í maganum þangað til þau fóru framhjá.“

Fannst eins og það væri ekkert sem pabbi gæti ekki reddað

Fjölskylda Gëzims dvaldi í tvær vikur hjá frændfólki sínu í miðborginni en þegar mikið flæði flóttamanna byrjaði að streyma út úr Kósóvó ákváðu þau að fara líka. Þau tóku lest til Makedóníu en hvarvetna á leiðinni út á lestarstöð blöstu hermenn við frá innrásarhernum. „Sem barn talaði ég ekki mikið og spurði lítið en ég hugsaði með mér hvort þeir gætu stoppað okkur. Geta þeir tekið bróður minn? Ég hugsaði þetta en áhyggjurnar voru samt ekki hræðsla. Ég var aldrei hræddur. Mér fannst eins og það væri ekkert sem pabbi gæti ekki reddað. Þúsundir biðu eftir lestinni og loks komumst við inn. Hún var svo troðin af fólki að hendur fólks héngu út um gluggana. Svo komu hermenn inn í lestina til að þreifa á fólki og leita að vopnum. Pabbi borgaði einum hermanninum um eitt þúsund krónur til að þurfa ekki að horfa upp á það að þuklað yrði á móður minni og systrum."

Osman, faðir Gëzims, segir í viðtali við Morgunblaðið árið 1999, aðeins tveimur mánuðum eftir að fjölskyldan kom heim, að honum hafi þótt verst að þetta fólk vissi ekkert hvað það væri að gera. „Það er búið að heilaþvo það," segir hann í viðtalinu, „Serbneska þjóðin er almennt mjög almennilegt fólk og serbneskum vinum mínum þykir leitt að það fór á þennan veg." Í sama viðtali minnist hann þess að makedónskir landamæraverðir vildu ekki leyfa fjölskyldunni að fara yfir landamærin í flóttamannabúðir sem NATO hafði sett upp, sem þýddi að þau þurftu að standa við landamærin í sjö klukkustundir.

Aldrei hljótt í flóttamannabúðunum

„Við stóðum allan tímann á lestarteinunum vegna þess að hermennirnir höfðu logið að okkur að það væri búið að koma jarðsprengjum fyrir utan lestarteinanna.“ Gëzim útskýrir að þau hafi þó verið mjög heppin því að á sama stað höfðu fjölmargir beðið í margar vikur án árangurs. Hann rifjar upp minningar úr flóttamannabúðunum þar sem 150 þúsund manns dvöldu. 

„Það var aldrei hljótt. Mæður öskruðu á börn sem höfðu týnst í mannfjöldanum. Karlmenn að ryðja sér leið að vatnsflöskum sem hjálparsamtök og sjálfboðaliðar voru að dreifa. Traktorar keyrðu um og dreifðu brauði. Mér fannst áhugavert að sjá fullorðna fólkið haga sér svona og ég man ekki eftir hræðslu eða sorg, ég vildi bara horfa á og skilja. Núna skil ég að það var engin munur á fólkinu í flóttamannabúðunum í kringum mig á þessum tíma og þeim sem voru í jakkafötum á fínum skrifstofum í Evrópu. Við getum öll lent í erfiðum aðstæðum í lífinu en ef tækifæri gefast getum við öll orðið að vísindamönnum, læknum, fótboltamönnum eða hvað sem er og lifað mannsæmandi lífi.“

Ekki með neinar túristaóskir

Fjölskyldan dvaldi í flóttamannabúðunum í þrjá daga þar til leiðir opnuðust fyrir flóttamenn til að skrá sig til einhvers lands. „Það voru langar biðraðir af fólki að skrá sig til hvaða lands sem tækifæri gafst til. Bróðir minn var að bíða í röðinni til að fara til Noregs og þegar röðin var nýkomin að honum fylltust sætin. Næst á eftir Noregi kom Ísland upp, sem var að taka við um 25 flóttamönnum. Við vorum ekki með neinar túristaóskir þannig að bróðir minn skráði sig strax. Við fengum aðeins nokkra klukkutíma til að taka saman dótið okkar og svo vorum við komin í flugvélina. Ferðin var skipulögð af Rauða krossinum og þetta var yndislegasta fólk. Brosin sem mig hafði vantað svo lengi sá ég loksins á andlitum þess. Það var eins og andlit foreldra minna hefðu opnast líka. Í fyrsta sinn í langan tíma voru þau ekki lengur með áhyggjusvip. Eftir langa óvissu um framtíðina vissum við loksins að það væri engin hætta fram undan. Við kunnum ekki að þakka fyrir okkur nema stara á þau og brosa út að eyrum.“

Halldór Ásgrímsson tekur á móti hópnum frá Kósóvó árið 1999 ...
Halldór Ásgrímsson tekur á móti hópnum frá Kósóvó árið 1999 er flugvél þeirra lenti á Reykjavíkurflugvelli. Mynd/ Morgunblaðið

Tungumálið mesta vandamálið

Þegar til Íslands var komið fékk fjölskyldan samastað fyrst um sinn á hóteli. „Móttökurnar sem við fengum á Íslandi voru alveg einstakar. Það var alltaf verið að skipuleggja ferðir fyrir okkur. Við vorum aldrei án túlks. Það voru haldin tungumálanámskeið sérstaklega fyrir okkur. Við börnin fengum öll hjól að gjöf og okkur fannst það nú ekki lítið mál. Ég hafði aldrei átt hjól áður. Og við fengum oft að fara í ísbíltúr.“

Gëzim, sem í dag talar mjög góða íslensku, játar að tungumálið hafi auðvitað verið mesta vandamálið við komuna til landsins. „Einn fyrsta daginn í skólanum var öllum nemendunum í bekknum afhent verkefni og í reitnum þar sem átti að skrifa nafnið sitt skrifaði ég Daníel. Hann var sessunautur minn og ég var að reyna að herma eftir honum. Þegar ég var svo í sjötta bekk varð árásin á tvíburaturnana í New York. Kennarinn spurði mig eitt sinn fyrir framan alla hina nemendurna hvað pabbi minn héti og þá fór ég í algera paník. Pabbi heitir Osman og mér fannst það líkjast Osama allt of mikið svo ég sagði annað nafn.“

Hann segir kennarana ætíð hafa verið mjög þolinmóða og að alltaf hafi verið komið til móts við þarfir þeirra. Einnig hafi það tekið tíma hvernig átti að læra inn á vináttu á Íslandi, hvernig átti að segja hluti, hvað væri fyndið og hvað ekki. „Í níu ár hafði ég byggt upp persónuleika sem var viðeigandi fyrir allt aðra menningu. Það tók að sjálfsögðu mun lengri tíma fyrir foreldra mína að ná tökum á íslenskunni, sem þýddi að ég þurfti að hafa stjórn á heimanáminu og aganum sjálfur.“

Ekki pláss fyrir annað en algjöra hamingju

En hvernig leið foreldrum hans við komuna hingað? „Pabbi var lengi pólitískur aðgerðasinni. Við vorum því ávallt undir smásjá lögreglunnar og hann hafði verið handtekinn og hótað pyntingum fyrir að skipuleggja fundi. Eins og flestar fjölskyldur á þessum tíma vorum við fátæk. Pabbi hafði verið rekinn úr skrifstofuvinnu fyrir að neita að hætta að skrifa skjölin á albönsku, við vorum lengi undir stjórn herafls sem hataði okkur og í miðju stríði lögðu svo foreldrar mínir á flótta í ferð sem þau vissu ekki hvort gæti verið dauðadómur fyrir okkur börnin. Í allri þessari óvissu komu þau svo til lands þar sem fólk beið eftir þeim með blómvönd á flugvellinum. Hvert sem þau fóru brosti fólk til þeirra. Þau eygðu loks framtíð fyrir börnin sín. Svo fengu þau líka að vita að fjölskyldan heima væri óhult. Rauði krossinn gaf okkur tækifæri til að bjóða þeim líka til landsins en þau þurftu þess ekki. Ég get ekki ímyndað mér að það hafi verið pláss fyrir annað en algjöra hamingju.“

Brosin endurheimt - albönsk börn glöð og kát skömmu eftir ...
Brosin endurheimt - albönsk börn glöð og kát skömmu eftir komuna til landsins. Mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

Fann aldrei fyrir fordómum

Fjölskylda Gëzims var með tvær stuðningsfjölskyldur við komuna til landsins og hann segir þær hafa verið mjög mikilvægar í aðlögunarferlinu, þær hafi veitt öryggistilfinningu og það hafi verið mikilvægt að eiga vin til að leita til. „Þau voru öll yndisleg. Ein fjölskyldan bjó í sömu blokk og við. Þau kenndu okkur á kerfið, eins og hvert við áttum að fara til að borga reikninga og hvar við gætum verslað, og þau komu oft í heimsóknir eða fóru með foreldra mína í ferðir út í íslenska náttúru. Önnur fjölskyldan flutti í burtu stuttu síðar en við héldum sambandi við hina í mjög langan tíma.“  

Gëzim segist aldrei hafa fundið fyrir fordómum og að tveimur mánuðum eftir komuna til Íslands hafi þau flest verið byrjuð í vinnu eða skóla. „Við gerum okkur oft ekki grein fyrir því hversu flottu, réttlátu og umburðarlyndu landi við lifum í. Eins og það er mikilvægt að vernda efnahag landsins er líka mikilvægt að verja þessi gildi. Ef lífshamingja væri mæld í peningum væru öll vandamál mannkyns löngu leyst.“

Þróuðum venjulega íslenska rútínu

Spurður hvernig þessum hópi sem kom frá Kósóvó árið 1999 hafi vegnað á Íslandi segir hann að þeir sem hafi haldið áfram að búa á Íslandi hafi þróað ósköp venjulega rútínu. „Flestir hafa eignast fjölskyldu og eiga börn í leikskóla eða grunnskóla. Börn sem eru algjörir englar í desember þegar þau þurfa að passa sig á því að jólasveinninn gefi þeim ekki kartöflu í skóinn næsta dag. Foreldrar sem rífast um það hvort þeirra á að fara að versla í matinn og hvort á að fara með börnin á æfingu. Mjög fá okkar kláruðu ekki menntaskólann. Flest fóru í háskóla eða annað nám. Ég og vinur minn, sem kom einnig sem flóttamaður nokkrum mánuðum á undan mér, fórum í verkfræði. Hann er núna að ljúka doktorsnámi í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Annar æskuvinur sem kom með sömu flugvél flóttamanna og ég er núna flugmaður hjá WOW air. Ég starfa sem vefforritari fyrir mbl.is. Svo eru efnaverkfræðingur hjá Actavis, hjúkrunarfræðingur, tanntæknir og sjúkraliði. Ein ótrúlega dugleg kona kláraði læknanám á Íslandi eftir að hafa klárað það fyrst í Kósóvó og starfar nú sem heimilislæknir.“

Getum ekki afsalað okkur ábyrgð

Þegar talið berst að þeim röddum innan samfélagsins sem vilja ekki að Ísland taki við fleiri flóttamönnum og hvað honum finnist um þær segir Gëzim að honum finnist ósanngjarnt að við afsölum okkur ábyrgð við að hjálpa til þegar á reynir, þar sem við séum hluti af hnattvæddu kerfi sem byggist á vinnuafli sem tínir kryddið okkar, setur saman símana okkar og saumar á okkur fötin. „Við vitum að það er mikil misskipting auðæfa. Sem mjög einfalt dæmi getum við tekið að Tiger Woods fær meira borgað fyrir að klæðast Nike-fötum heldur en þúsundir starfsmanna í Nike-verksmiðjum í Indónesíu. Þetta eru rótgróin vandamál sem við sjáum ekki fyrr en fólk fær nóg eða þegar stríð geisa. Ef við byggjum upp samfélag af umburðarlyndu fólki mun það speglast í ríkisstjórnum sem setja mannréttindi og velferð fólks í forgang, hvort sem það er um flóttafólk, launajafnrétti kynja eða réttindi samkynhneigðra. Þetta er sú hugsjón sem ég tel að fólk sé að berjast fyrir. Ég skil áhyggjur sumra um að jafnvægi í samfélagi okkar geti raskast. Að sjálfsögðu eigum við að hlusta á allar hliðar málsins því við erum í þessu skipi saman og viljum öll það besta fyrir landið. Það sem mér hefur fundist truflandi hins vegar er ummæli sem hafa heyrst bæði á Íslandi, í Austur-Evrópu og frá forseta Ungverjalands um að við verðum að hindra komu flóttafólks til Evrópu vegna þess að það sé íslamstrúar. Er það þannig sem þeir myndu útskýra fyrir litla drengnum sem drukknaði og skolaði á strönd Tyrklands, að hann hafi dáið fyrir þá synd að vera múslími?“

Vil að fleiri fái sömu tækifæri og ég fékk

Undanfarið hefur birst mikill velvilji gagnvart flóttamönnum og virðast margir Íslendingar reiðubúnir að rétta fram hjálparhönd og vilja auka flóttamannakvótann svo um munar. Hverjar eru vonir Gëzims um aðgerðir íslenskra stjórnvalda? „Það er æðislegt að sjá að maður lifir í landi sem er að setja fordæmi fyrir önnur lönd og á sama tíma að gera mér grein fyrir því að þessi samkennd Íslendinga bjargaði mínu lífi. Ég vil að fleiri fái sömu tækifæri og við fengum. Ég vil að fleiri foreldrar viti að þeir muni sjá börnin sín vaxa úr grasi. Neyðin hefur aldrei verið meiri og ég vona að við gerum okkar allra besta við móttöku flóttafólks og þrýstum á þau lönd sem hafa neitað að leggja málinu lið. Ástandið fer versnandi og fólkið hefur ekki tvö ár til að bíða eftir hjálp. Við verðum að bregðast við strax, því að þetta er ekki tími fyrir skriffinnsku. Verum ljós í heimi sem stundum er í myrkri. Ef Íslendingar gátu unnið þorskastríðið og Holland á útivelli geta þeir líka unnið þennan bardaga.“

mbl.is

Innlent »

Fjölmenni í Ásbyrgi

Í gær, 23:15 „Menn endast hérna á meðan veðrið er gott,“ segir Guðmundur Ögmundsson þjóðgarðsvörður um tjaldsvæðið í Ásbyrgi en um 7-800 manns hafa lagt leið sína þangað til þess að tjalda í góða veðrinu. Meira »

John Snorri er lagður af stað

Í gær, 22:59 John Snorri Sigurjónsson er að leggja af stað í leiðangurinn á topp fjallsins K2 sem er talið eitt það hættulegasta í heimi. Takist honum ætlunarverkið verður hann fyrstur Íslendinga til að klífa fjallið. Aðeins 240 manns hafa komist á topp fjallsins og 29 prósent þeirra sem reyna það láta lífið. Meira »

Smíðar báta fyrir fiskeldi

Í gær, 21:29 „Áhugi á fiskeldi er að aukast, það vantar báta sem eru fljótari í förum en tvíbytnurnar,“ segir Vilhjálmur B. Benediktsson, framkvæmdastjóri Pípulagningarþjónustu Vilhjálms og Axels og Bátasmiðjunnar Ránar á Djúpavogi. Meira »

Leitinni frestað um sinn

Í gær, 21:10 Áfram var leitað í dag að Georgíumanninum Nika Begades, sem féll í Gullfoss á miðvikudag. Leitarsvæðið á ánni var stækkað til muna í dag og var leitað frá Laugarási og vel upp fyrir Brattholt. Meira »

Heimur kvikmynda er alþjóðlegur

Í gær, 21:00 Ragnhildur Magnúsdóttir Thordarson, eða Ragga eins og hún er alltaf kölluð, er búsett í Los Angeles í Bandaríkjunum, þar sem hún starfar hjá hinum virta skóla New York Film Academy. Ragnhildur hefur tekið þátt í fjölda verkefna bæði erlendis sem og hér heima og var meðal annars ráðgjafi teymisins á bak við Simpson-þættina vinsælu þegar Íslandsþáttur þeirra var gerður. Meira »

Vinningsmiðinn seldur í Garðabæ

Í gær, 19:37 Einn hafði heppnina með sér þegar dregið var út í Lottó í kvöld, en sá miðahafi hafði fjórar réttar tölur auk bónustölunnar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Íslenskri getspá. Meira »

Fékk fyrsta Moggann í arf

Í gær, 19:24 „Blaðið er nánast eins og nýtt þrátt fyrir að vera næstum orðið 104 ára,“ segir Kjartan Aðalbjörnsson, eigandi fyrsta tölublaðs Morgunblaðsins í upprunalegu prenti. Meira »

Vinnuslys á Suðurlandi

Í gær, 19:26 Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út rétt fyrir klukkan sjö í kvöld til þess að sækja slasaðan mann á Suðurland, skammt frá Hrólfsstaðahelli og Leirubakka, sem lenti í vinnuslysi. Meira »

Gjaldheimta hafin við Seljalandsfoss

Í gær, 19:07 Gjaldtaka er hafin við Seljalandsfoss. Rukkað er á bílastæðinu við fossinn og er sólarhringsgjald fyrir hvern bíl 700 krónur en 3 þúsund fyrir rútur. Gjöldunum mun vera ætlað að standa straum af kostnaði vegna uppbyggingar innviða við fossinn. Meira »

Margir á tjaldsvæðinu í Ásbyrgi

Í gær, 19:04 Þétt er setið á tjaldsvæðunum í Ásbyrgi, þar sem í dag er tuttugu stiga hiti og léttskýjað. Sú veðursæld laðar að og hefur fjöldi fólks verið á svæðinu í líðandi viku. Meira »

Gleymdi dómarinn spjöldunum í hálfleik?

Í gær, 18:27 Dómararnir í leik Íslands og Sviss fengu ekki mikið lof frá íslenskum Twitter-notendum svo ekki sé kveðið fastar að orði. Bragi Valdimar Skúlason grínisti var einn þeirra og velti hann fyrir sér hvort dómarinn hafi hreinilega ekki skammast sín fyrir að hafa gleymt spjöldunum í sjoppunni í hálfleik. Meira »

Mæla með að allt sé uppi á borðum

Í gær, 17:19 Yfir 99 prósent þeirra kvenna sem gefa egg hér á landi velja það að vera opnir gjafar. Þau börn sem verða til úr eggjum þeirra, ef einhver verða, eiga rétt á fá að vita hver gjafinn er, eftir að þau hafa náð 18 ára aldri. Meira »

Hátt í 2.500 tjalda á Akureyri

Í gær, 17:14 „Við höfum ekki við að færa það til bókar jafnóðum,“ segir Ásgeir Hreiðars­son hjá Útil­ífs- og um­hverf­issmiðstöð skáta sem rek­ur tjaldsvæðin á Ak­ur­eyri, spurður um fjöldann á svæðunum. Hann giskar á að um 2.000 manns séu á Hömrum en 4-500 manns á tjaldsvæðinu á Þórunnarstræti. Meira »

Þyrlan sótti konu í Bláhnjúk

Í gær, 15:21 Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slasaðrar konu á Bláhnjúk. Konan hrasaði við göngu. Björgunarsveitarmenn á Hálendisvakt í Landmannalaugum aðstoðuðu konuna en það reyndist svo krefjandi verkefni að koma konunni af vettvangi að sjúkrabifreið að ákveðið var að kalla til þyrluna, segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu. Meira »

Nafn mannsins sem lést í Keflavík

Í gær, 14:13 Maður­inn sem lést eftir vinnuslys í Plast­gerð Suður­nesja í gær var fæddur árið 1985.   Meira »

Tólfan heldur uppi stuðinu á EM-torginu

Í gær, 16:57 Fjöldi fólks er kominn saman á EM-torginu, Ingólfstorgi, þar sem leikur Íslands og Sviss á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu er sýndur í beinni útsendingu á breiðtjaldi. Meira »

„Óskapnaðurinn“ er Íslandsvinur

Í gær, 15:00 Regnkápa Margrétar Þórhildar Danadrottningar er umdeild í Danmörku, en svo virðist að þetta sé sama kápan og drottningin skrýddist þegar hún kom hingað til lands 1994. Meira »

Mengunin frá rotþró eða dýraúrgangi

Í gær, 13:48 Leitað er að uppsprettu saurkólígerlamengunar í Varmá í Mosfellsbæ en hún er talin stafa annað hvort af rotþróm eða dýraúrgangi. Þetta segir Árni Davíðsson, heil­brigðis­full­trúi Mos­fells­bæj­ar, í sam­tali við mbl.is. Meira »
BMW F650CS + nýr jakki, buxur og hjálmur
BMW F650 CS ferðahjól til sölu. Ekið aðeins 17.000- km. Hjálmageymslubox fylgir....
VÖNDUÐ VEL BÚIN KENNSLUBIFREIÐ
Vönduð, vel búin kennslubifreið Subaru XV 4WD . Akstursmat og endurtökupróf. Gyl...
Manntal 1703
Manntal á Íslandi 1703 til sölu ásamt manntali í þremur sýslum 1729, innbundið í...
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...
 
Breyting á aðal- og deiliskipulagi
Tilkynningar
Auglýsing um skipulag á Akranesi Till...
Skrifstofustjóri
Stjórnunarstörf
Skrifstofustjóri óskast til starfa hjá ...
Félagsstarf
Staður og stund
Árskógar 4 Smíðar/útskurður m./leiðb. kl...
Samkoma
Félagsstarf
Samkoma kl. 20 í Kristniboðs- salnum. R...