„Það þekkja allir Gest Jónsson eða Sigga G“

Starfsmenn sérstaks saksóknara og fulltrúi slitabús Kaupþings.
Starfsmenn sérstaks saksóknara og fulltrúi slitabús Kaupþings. Árni Sæberg

Þriðji og síðasti dagur skýrslutöku í Marple-málinu hófst í morgun, en með ákærðu munu vel á þriðja tug sem bera vitni í málinu. Gert er ráð fyrir að málflutningur verjanda hefjist á morgun, en dómari þrýsti í gær á verjendur að reyna að reyna að halda ræðum sínum eins stuttum og unnt er. Var hann vongóður um að málflutningurinn gæti klárast á föstudaginn, en með því yrði lengd aðalmeðferðar í heild fimm dagar.

Í gær komu fyrir dómarann starfsmenn úr bókhaldi Kaupþings auk fyrrverandi starfsmanna hjá Kaupþingi í Lúxemborg.

Jón Óttar mætti fyrir dóminn

Þá bar einnig Jón Óttar Ólafsson, fyrrum starfsmaður hjá sérstökum saksóknara, vitni í dómsal. Er hann eitt af fáum vitnum sem verjendur ákærðu boðuð til skýrslutöku. Verjandi Hreiðars Más leiddi skýrslutökuna yfir honum, en Jón Óttar bar þar embætti sérstaks saksóknara þungum sökum, eins og hann hafði gert áður í viðtali við Fréttablaðið og í viðtali hjá Rúv í fyrra.

Gagnrýndi hann meðal annars að starfsmenn embættisins hafi á þeim tíma sem hann vann þar hlustað á símtöl við verjendur sem hafi getað hjálpað mikið við og verið upplýsandi til að vita stefnu verjenda í málum.

McDonalds réttarfar

Sagði frá því hvernig lögreglumenn hefðu fengið aðgang að tölvudrifi þar sem öll símtöl sem tekin voru upp voru aðgengileg. Ekkert væri gert til að sigta út símtöl verjanda, annað en að þeir lögreglumenn sem hlustuðu þurftu að gera sér grein fyrir hver væri viðmælandinn. Það gat oft tekið langan tíma, sagði hann, þó að sumar raddir væru kunnuglegri en aðrar. „Það þekkja allir Gest Jónsson eða Sigga G, en aðra þekkir maður kannski ekki svo vel,“ sagði Jón Óttar.

Þá rifjaði hann upp atvik þar sem hann og annar lögreglumaður fóru til dómara, rétt áður en Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra Kaupþings, var sleppt úr gæsluvarðhaldi, þar sem gleymst hafði að endurnýja hlerunarheimild. Fóru þeir heim til dómarans, sem skrifar fyrir þá úrskurðarorð, sem Jón Óttar segir að hafi verið afrit af fyrri úrskurði, prentað þau út á staðnum og stimpluð með stimpli sem var allt öðruvísi en önnur skjöl í málinu fengu. Hafi hann og lögreglumaðurinn eftir þetta grínast með að þetta væri „Mcdonalds réttarfar.“

Sagðist ekki hafa fengið greitt fyrir minnisblaðið

Saksóknari í málinu spurði Jón Óttar út í það hvort hann hefði unnið verkefni fyrir ákærðu og svaraði hann því til að hann hefði gert minnisblað fyrir Al-Thani málið fyrir verjanda Hreiðars Más. Þar hafi hann bent á annmarka við málið sem finna mátti í málsgögnum. Sór hann að hann hefði aldrei fengið greitt fyrir slíka vinnu, heldur hafi hann af fyrra bragði komið til lögmannsins varðandi það og það væri af „persónulegum ástæðum“ sem hann hefði áhuga á því að „yfirvöld og lögreglan brjóta á réttindum manna“ og sagðist hann vilja benda á það. Hann vildi þó ekki gefa upp nánar í hverju þessar persónulegu ástæður fælust.

Í fyrri málum sérstaks saksóknara hafði dómurinn ekki fallist á að Jón Óttar kæmi fram sem vitni.

Jón Óttar Ólafsson, hefur undanfarin ár gagnrýnt embætti sérstaks saksóknara …
Jón Óttar Ólafsson, hefur undanfarin ár gagnrýnt embætti sérstaks saksóknara harðlega. Sigfús Már Pétursson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert