Raunverulegt fólk á bakvið orðin

Sýrlensk flóttafjölskylda á Lesbos eftir hættulega ferð yfir hafið frá …
Sýrlensk flóttafjölskylda á Lesbos eftir hættulega ferð yfir hafið frá Tyrklandi. AFP

Yfir 2.100 manns hafa skráð sig  til þátttöku í samstöðuviðburði með flóttamönnum á morgun klukkan 13. Einn helsti skipuleggjandi viðburðarins, Þórunn Ólafsdóttir, verður ekki á meðal mannfjöldans á Austurvelli á morgun þar sem hún er sjálfboðaliði við móttöku flóttafólks á grísku eyjunni Lesbos.

Viðburðurinn ber titilinn #Europesayswelcome-Reykjavík og er hluti af keðju viðburða um alla Evrópu og jafnvel víðar þar sem fólk hyggst safnast saman og mótmæla lokun landamæra, sinnuleysi yfirvalda í garð flóttafólks og sýna vilja sinn til að aðstoða flóttafólk í verki.

Kæra Eygló sprengdi internetið og það er tekið fram af stofnendum þessa samevrópska viðburðar að það sé hluti af innblæstrinum svo mér finnst alveg sjálfsagt að við tökum þátt og virkjum þennan kraft hérna heima,“ segir Þórunn. 

Þórunn segir samstöðuna og það að sýna flóttafólki að það er raunverulegt fólk að baki herferðum á við Kæra Eygló vera helsta tilgang viðburðarins.

„En þessu er auðvitað líka ætlað að þrýsta á stjórnvöld og ekki síður til að sýna þeim að það er raunverulegt fólk á bakvið þessi orð, sem óskar eftir því að fá að hjálpa. Þetta er svo sérstök staða því það er svo oft sem fólk stendur á Austurvelli og mótmælir en í þessu tilfelli erum við að biðla til stjórnvalda um að fá að aðstoða fólk. Og ef þau ætla að standa í vegi fyrir því veit ég ekki hvert heimurinn er að fara.“

Stolt af kærleikanum

Þórunn hefur deilt reynslu sinni af hjálparstarfinu á Facebook. Segir hún viðbrögðin hafa verið ótrúleg og að hún sé afar stolt af því hvernig kærleikurinn hefur stjórnað orðum og gerðum samlanda sinna síðustu vikur. Spurð út í upplifanir sínar á Lesbos segist hún ekki vita hvað hún þyrfti langan tíma til að lýsa því hvernig það er að standa í miðri hringiðunni.

„Það er ekkert sem heitir „beisikk“ dagur í þessu starfi. Hingað koma allt upp í 2.000 manns á dag og þó það komi úr svipuðum aðstæðum eru þetta allt ólíkir einstaklingar.“

Þórunn segist skilja vel að þær hörmungar sem flóttafólkið þarf að ganga í gegnum séu fjarlægar Íslendingum enda hafi þær verið fjarlægar fyrir henni sjálfri áður en hún kom út. Henni finnst aðgerðarleysi stjórnvalda ótrúlegt þar sem allir vita af þeim hryllingi sem blasir við flóttafólki.

„Þó þetta virðist fjarlægt hefur staðan breyst aðeins á síðustu vikum. Það er ekki þverfótað fyrir  fjölmiðlafólki, það eru myndir úti um allt og fólk lætur sig þetta varða en það breytir því ekki að hjálpin sem er að berast er eiginlega bara frá fólki sem hefur ekki getað horft upp á þetta án þess að gera eitthvað og komið á eigin vegum til að hjálpa.“

Þórunn hefur verið á Lesbos frá því um mánaðarmótin júlí-ágúst og hefur ekki ákveðið hvenær hún fer. „Ég veit það ekki, ég tek bara einn dag í einu.“

Flóttafólk verður boðið velkomið á Austurvelli á morgun.
Flóttafólk verður boðið velkomið á Austurvelli á morgun. Ljósmynd af síðu viðburðarins
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert