Lögreglumenn samningslausir í 134 daga

Lögreglumenn á landinu öllu sýndu samstöðu sína í verki með því að fara út á vegi landsins í dag á milli 14:30 og 15:00 og sinna umferðareftirliti. Lögreglumenn í öllum embættum landsins tóku þátt í eftirlitinu þar sem þeir könnuðu ástand og réttindi ökumanna. Enginn ökumaður var sektaður í þessu eftirliti lögreglu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Lögreglumenn vilja með þessu koma því á framfæri að þeir séu langþreyttir á að viðsemjendur þeirra nýti sér þá staðreynd að lögreglumenn hafi ekki rétt til verkfalla og geti því lítið beitt sér fyrir betri kjörum, en lögreglumenn hafa verið samningslausir í 134 daga.

Því skora lögreglumenn á ráðherra að beita sér fyrir því að samið verið við lögreglumenn og laun þeirra leiðrétt til samræmis við skyldur þeirra og mikilvægi starfsins.

Lögreglumenn um allt land hvetja einnig alþingismenn, sama í hvaða flokki þeir eru, að styðja sjálfsagðan rétt lögreglumanna til að fá aftur verkfallsréttindi.

Fjöldi ökumanna var stöðvaður í þessum eftirlitsaðgerðum eins og sést á meðfylgjandi myndum og voru ökumennirnir almennt mjög ánægðir með vinnu lögreglu.

Undir tilkynninguna skrifar „hinn almenni samningslausi lögreglumaður.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert