Ísbirnir og ævintýr á Scoresbysundi

Hann kann vel við að starfa um borð í skipum …
Hann kann vel við að starfa um borð í skipum og gengur í öll störf.

Egill Bjarnason bjó í grænlenska þorpinu Ittoggortoormiit í fyrrasumar þegar hann vann að stuttmynd sinni, Þegar ísinn bráðnar, sem sýnd verður nú á RIFF. Hann vann í sumar sem háseti og leiðsögumaður á seglskipinu Donna Wood sem sigldi um Scoresbysund með ferðamenn. Við stýrið var færeyskur sjóhundur.

„Við leggjum upp frá Húsavík nú í byrjun október með skonnortuna Opal og við komum til með að sigla milli hafna í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Þetta verður mánaðarsigling þar sem Norðursigling ætlar að kynna nýja rafmagnsvél sem sett var í skipið. Opal var áður venjulegt seglskip með olíuvél sem Norðursiglingar gerðu út í ævintýraferðir til Grænlands og í hvalaskoðunum á Húsavík, en nú er það með rafmagnsvél og þegar seglin eru uppi þá er skrúfan þannig gerð að þá hleðst rafmagnsmótorinn. Vindorkan er virkjuð meðan siglt er. Þetta er íslenskt hugvit í samstarfi við Norðmenn og Svía,“ segir Egill Bjarnason, kvikmyndagerðarmaður, ljósmyndari og ævintýramaður, sem var að baka eftir uppskriftum Ingibjargar ömmu sinnar þegar blaðamann bar að garði.

„Það er eins gott að æfa sig, því við verðum fáir í áhöfninni og ætlast er til að allir gangi í öll störf, líka að baka og elda.“

Sjóhundurinn Sune lifði á kaffi, sígarettum og harðfiski

Egill er alvanur siglingum, því hann starfaði í allt sumar sem háseti og leiðsögumaður á nýjasta bátnum í flota Norðursiglinga sem heitir Donna Wood.

„Við sigldum með ferðamenn um Scoresbysund sem er stærsti fjörður í heimi og er á Austur-Grænlandi. Við sigldum í sjö daga í senn og á áttunda degi var farið með farþegana í land og þeir flugu heim. Fólk bjó um borð í bátnum en fór í land á hverjum degi til að skoða hið magnaða landslag sem er í Scoresbysundi, þarna eru miklar andstæður, mikið fjalllendi og að sama skapi láglendi, mjög harðbýlt við ströndina en inn til landsins er allt grænna og veðursælla. Þetta er á breiddargráðu sjötíu og þarna er þorpið Ittoggortoormiit sem er afskekktasta byggð í heimi. Þar búa 437 manns og 250 hundar. Næsta byggð er Siglufjörður á Íslandi.“

Egill segir vertíðina vera stutta til að fara með ferðamenn til Austur-Grænlands, því þar er ekki hægt að sigla nema í tvo og hálfan mánuð á ári, á öðrum tíma er svæðið þakið ís.

„Við lentum reyndar í því að óvenjumikill hafís var þarna í sumar, en færeyski skipstjórinn Sune Jensen var við stýrið á Donnu Wood og hann var sérlega flinkur að sveigja skipinu fram hjá ísnum,“ segir Egill og bætir við að Sune hafi verið einkar skemmtilegur.

„Hann er sannur sjóhundur sem lifir á kaffi, sígarettum og harðfiski. Hann er 73 ára og kom fyrst til Grænlands 13 ára og hefur verið mikið á sjó þarna. Reynsla hans af því að sigla um í hafís kom sér vel, því þetta var talsverð þraut að leysa.“

Egill var eini Íslendingurinn í áhöfninni og hann segist hafa stokkið reglulega í ískaldan sjóinn til að sanna hreysti Frónbúa.

Ýmislegt ævintýralegt kom upp á í siglingunum og eitt af því eftirminnilegasta var þegar þrír ísbirnir komu röltandi þar sem skipverjar lögðu eitt sinn að landi.

„Þeir voru milli bátsins og flugvallarins í Ittoggortoormiit. Þeir voru í rólegheitum á göngustígnum sem við vorum vön að ganga. Einhver hafði fleygt matarúrgangi á þessu svæði og það var talin ástæðan fyrir því að þeir komu. Á þessum árstíma þegar lítið er um ís á hafi geta þeir ekki verið á veiðum og eiga þá til að koma upp á land og ráfa um í leit að æti. Þess vegna urðum við alltaf að vera vopnaðir haglabyssum þegar við fórum í göngutúra þar sem við stoppuðum í landi með ferðamennina. En við skutum ekki þessa ísbirni, við létum starfsfólkið á flugvellinum vita og það kom brunandi á bíl og skaut upp blysum til að hræða þá í burtu. Farþegar okkar voru auðvitað í skýjunum að hafa fengið að sjá hvítabirni.“

Hægt að losna við allt áreiti

Egill segir að ferðamennirnir sem komu í siglingarnar hafi yfirleitt verið fólk sem var búið að prófa ýmislegt, hafði farið víða en þráði að komast á afskekktan stað.

„Þetta voru Bandaríkjamenn og Evrópubúar og oft voru þetta ljósmyndahópar, enda einstök náttúra þarna. Að vera innan um þessi risafjöll og skynja þessa miklu einangrun, er einstök upplifun. Ég var þarna í 52 daga og ég vissi í raun ekkert hvað var að gerast annars staðar í heiminum á meðan. Þarna er ekkert netsamband, sem var sannarlega góð hvíld. Þetta er einn af fáum stöðum þar sem er hægt að losna við allt áreiti.“

Framleiðir þátt um íslenska matargerð fyrir Al Jaseera

Egill er með mörg járn í eldinum, hann er m.a framleiðandi að þætti um íslenska matargerð sem sýndur verður á sjónvarpsstöðinni Al Jaseera, sem ku vera sú stærsta í heimi.

„Þetta er hluti af þáttaseríu í magasínþætti á ensku útgáfu sjónvarpsstöðvarinnar. Þrír ólíkir staðir eru skoðaðir út frá matarmenningu, Reykjavík, Kúba og Istanbúl. Við svindlum aðeins, förum til dæmis að Geysi og bökum rúgbrauð í hver. Við ætlum ekki að fjalla um hrútspunga eða annan þorramat, heldur hvernig það sem við borðum dags daglega á sér rætur í því þjóðlega og hvernig við notum hráefni úr heimasveitum í hverju héraði. Handritið er tilbúið og tökur verða nú í byrjun okt. og þátturinn verður sýndur milli jóla og nýárs.“

Togstreita unga fólksins sem kemur úr veiðimannasamfélagi

Undanfarin tvö ár bjó Egill í Kaliforníu þar sem hann var í námi í heimildarmyndagerð. Í fyrrasumar bjó hann í grænlenska þorpinu Ittoggortoormiit og vann að gerð stuttmyndar sinnar, Þegar ísinn bráðnar (Once the Ice Melts).

„Titillinn vísar til þess að hún gerist á einu sumri. Þetta er heimildamynd um unga fólkið í þorpinu og hún fjallar um fjóra einstaklinga sem ég fylgi eftir. Þeir hafa allir sína sögu að segja, en unga fólkið í þessu afskekkta þorpi er statt milli tveggja heima; veiðimannasamfélagsins sem á sér takmarkaða framtíð og svo hins sérhæfða nútímasamfélags sem þau hafa kynnst í skólunum sem þau hafa sótt á vesturströndinni, í höfuðborginni Nuuk. Þessir krakkar kunna að nota skutul til að veiða, en það gagnast þeim lítið í nútímasamfélagi. Þeir sem eru ungir eiga sér sínar fyrirmyndir á æskuslóðum og það eru allt veiðimenn eða annað í þeim dúr. Þetta skapar þó nokkra togstreitu þegar fólk þarf að ákveða hvað það ætlar að gera í framtíðinni.“

Smakkaði spik af náhval

Egill kunni vel við sig þegar hann bjó í þorpinu og kynntist heimafólki.

„Þetta er mjög rólegur staður og það sem gerir þorpið sérstakt er að eini atvinnuvegurinn eru veiðar, ýmist á selum, ísbjörnum eða náhval,“ segir Egill og bætir við að sér finnist spik af náhval alveg ágætt, en að sjálfsögðu smakkaði hann það. „Þetta er borið fram í litlum teningum og er reyndar ekki líkt neinu sem ég hef áður smakkað. Hvalspikið er verðmætast af skepnunni sem og hvalstönnin, en hún er yfirleitt seld í heilu lagi. Það sem hefur farið hvað verst með þetta byggðarlag er að verslun með alla grávöru eins og náhvalstennur og ísbjarnarfeldi er bönnuð utan Grænlands. En þeir selja þetta samt innanlands.“

Donna Wood sést hér neðst fyrir miðju reyna að ryðja …
Donna Wood sést hér neðst fyrir miðju reyna að ryðja leið gegnum hafísinn Christian Lindquist
Ýmislegt ævintýralegt kom upp á í siglingunum og eitt af …
Ýmislegt ævintýralegt kom upp á í siglingunum og eitt af því eftirminnilegasta var þegar þrír ísbirnir komu röltandi þar sem skipverjar lögðu eitt sinn að landi.
Ísbjörn sem Egill og félagar rákust á.
Ísbjörn sem Egill og félagar rákust á.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert