Deildir yfirfullar og aðgerðum frestað

Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut.
Landspítali háskólasjúkrahús við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Um 75% þeirra starfsmanna sem sögðu upp störfum á Landspítalanum í sumar hafa dregið til baka uppsagnir sínar. Þetta kemur fram í föstudagspistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans. „Við vonumst auðvitað til að fleiri bætist í hópinn enda framundan annasamir tímar á Landspítala. Mun betur horfir hvað geislafræðinga varðar og hefur mikill fjöldi umsókna borist vegna þeirra starfa sem auglýst voru,“ segir Páll í pistlinum.

Hann segir að hins vegar standi nú yfir atkvæðagreiðsla um verkfallsaðgerðir Sjúkraliðafélags Íslands og SFR. Í pistlinum segir hann að um fimmtung starfsmanna Landspítala tilheyra þessum félögum og því fyrirséð að áhrifin á starfsemi Landspítala eru umtalsverð.

„Komi til þessara aðgerða má segja að heilt ár hafi verið undirlagt af verkföllum og kjaradeilum á spítalanum. Þetta hefur valdið umtalsverðri truflun í starfsemi spítalans sem fyrst og síðast hefur bitnað á sjúklingum, um það verður ekki deilt né fram hjá því horft. Það er umhugsunarvert að kjaradeilur bitni endurtekið á þessari viðkvæmu starfsemi og bera allir deiluaðilar þar  ábyrgð. Það verður að tryggja þjóðarsjúkrahúsinu viðunandi starfsumhverfi, við þetta verður ekki unað. Umræður um breytingar á umhverfi kjarasamninga eru vonandi skref í rétta átt,“ skrifar Páll.

„Mikið álag er nú á spítalanum og bæði gjörgæslu- og legudeildir yfirfullar. Þegar hefur þurft að fresta skipulögðum aðgerðum þar sem legurými skortir og lengja þjónustutíma 5 daga deilda. Álagsvísar sýna verulega þunga stöðu. Náið er fylgst með stöðu mála og allir leggja hönd á plóg til að tryggja öryggi sjúklinga við þessar erfiðu aðstæður.“

Unnið að nýjum meðferðarkjarna

Í pistlinum segir Páll auk þess að í síðustu viku hafi starfsmenn spítalans unniið að hönnun sameinaðar bráðamóttöku í nýja meðferðakjarnanum sem rísa mun við Hringbraut. „Þessa vikuna hafa ríflega 40 manns unnið að hönnun legudeilda sem einnig verða í meðferðarkjarnanum. Við höfum notið leiðsagnar Chris Bacous frá Virginia Mason Institute í Seattle í þessari skemmtilegu vinnu. Þetta hefur verið gríðarlega öflugt ferli og framlag starfsmanna ómetanlegt. Stuðningur stjórnvalda, með heilbrigðisráðherra í fararbroddi, er afar dýrmætur. Saman munum við sigla þessu skipi í örugga höfn.“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert